Ótímabær veiðigleði

Greinar

Þegar fiskifræðingar eru farnir að spá í aukinn þorskkvóta vegna göngu Grænlandsþorsks á Íslandsmið, er rétt að staldra við og minnast þess, er Norðurlandssíldin hvarf af Íslandsmiðum. Þá var síldinni eytt með samstilltu átaki fræðimanna og sjósóknarmanna.

Mikilvægt er, að helztu fiskifræðingar ríkisins gangi ekki fram fyrir skjöldu í veiðigleði, þótt óvænt happ beri að garði. Þorskstofnar við Ísland hafa farið minnkandi, meðal annars vegna þess að Hafrannsóknastofnunin hefur lagt fram fremur bjartsýnar stofnspár.

Að vísu hafa stjórnvöld gengið lengra en fiskifræðingar hafa viljað. Það merkilega er, að hin síðari ár hefur ofveiðin ekki verið stunduð að undirlagi hagsmunaaðila. Landssamband útvegsmanna hefur um nokkurt skeið lagt til, að farið sé eftir tillögum fræðinga.

Það eru stjórnvöld, sem hafa af ýmsum pólitískum ástæðum, svo sem vegna byggðastefnu, ekki treyst sér til að hafa kvótann eins lítinn og hann hefði þurft að vera. Þess vegna er ánægjulegt, að sjávarútvegsráðherra skuli nú hvetja til varfærni út af Grænlandsþorski.

“Þorskstofninn er of lítill og hann þarf að stækka. Þess vegna hef ég sagt, að komi þorskganga frá Grænlandi, væri nauðsynlegt að stækka stofninn, en ekki nota þá göngu til að auka veiðarnar.” Þessi orð Halldórs Ásgrímssonar í viðtali við DV eru kjarni málsins.

Svo mikið er veitt af þorski við Ísland, að búseta þjóðarinnar í landinu er orðin að happdrætti. Ef ekki kemur inn happdrættisárgangur og ef ekki kemur inn ganga af Grænlandsþorski, hverfur þorskurinn af mannavöldum eins og Norðurlandssíldin gerði á tryllingsárunum.

Ef við fáum annan vinninginn í happdrættinu, eigum við að nota hann til að taka frá okkur frekari happdrættisáhættu í framtíðinni. Það er kjörið tækifæri til að koma búsetuskilyrðum á Íslandi í sæmilega traust horf, en ekki tækifæri til enn eins skyndigróðans.

Það, sem gerzt hefur, er ekki annað en að sex ára þorskur frá Grænlandi hefur slæðzt í afla á Selvogsbanka og út af Stafnesi. Á þeim grundvelli spá fiskifræðingar göngu Grænlandsþorsks á Íslandsmið á næsta ári. Sú ganga getur orðið stór, 100 þúsund tonn.

Það væri okkur líkt að fara að úthluta happdrættisvinningi, sem spáð er, að komi á næsta ári. Við erum farnir að hlusta á hjáfræðimenn, sem hafa þá notalegu skoðun, að ekki beri að geyma þorskinn í sjónum, því að selurinn og hvalurinn éti hann frá okkur.

Auðvitað eru takmörk fyrir því, hvað borgar sig að leggja mikið fyrir af þorski í sjó. Svo stór getur stofninn orðið, að auknar veiðar borgi sig til að hindra afföll af öðrum ástæðum. En þorskstofn, sem hefur lengi verið í rénun, á ekki að vera tilefni slíkra hugleiðinga.

Við eigum aðeins þrjár auðlindir. Við eigum orkuna, sem nú stendur til að gefa í nýtt álver. Við eigum þekkinguna, sem við notum allt of lítið. Og við eigum fiskinn í sjónum, sem við höfum ofnotað, allt frá því að við fengum stjórn fiskimiðanna við landið í eigin hendur.

Árið 1955 veiddum við 130 milljón þorska. Samtals vógu þeir 538 þúsund tonn. Árið 1987 veiddum við sama fiskafjölda, en þeir vógu aðeins 380 þúsund tonn. Í fyrra skiptið var meðalþorskurinn 4,1 kíló, en nú er hann 2,9 kíló. Segir þetta ekki nóg um óheillabraut okkar.

Því rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, er glaðhlakkalegur fræðingur spáir í sjónvarpi aukinni veiði á næsta ári. Á að fara með þorskinn eins og síldina?

Jónas Kristjánsson

DV