Einhliða frelsi borgar sig

Greinar

Mikið var rifizt um landbúnaðarmál á fundi leiðtoga sjö helztu iðnríkja heims í Houston í Texas í gær og í fyrradag. Fulltrúar Bandaríkjanna kröfðust þess, að hætt yrði niðurgreiðslum og öðrum peningatilfærslum, sem hafa áhrif á viðskipti með landbúnaðarafurðir.

Fulltrúar ríkja Evrópubandalagsins voru þessu andvígir, af því að landbúnaðarafurðir þeirra eru ekki samkeppnisfærar. Hins vegar eru Bandaríkjamenn studdir af löndum þriðja heimsins, sem komast ekki með sína búvöru á alþjóðamarkað vegna viðskiptahindrana.

Hér á landi hefur ríkt sama stefna og í Evrópubandalaginu. Við höfum landbúnað, sem ekki er samkeppnishæfur í öðru en hrossarækt. Þess vegna hefur hér verið reist fyrirgreiðslukerfi upp á 18 milljarða króna á ári, meðal annars með hreinu innflutningsbanni á búvöru.

Búast má við, að Evrópubandalagið verði smám saman að gefa eftir fyrir samræmdum sóknaraðgerðum Bandaríkjanna annars vegar og þriðja heimsins hins vegar. Enda er ljóst, að þriðja heiminum er haldið niðri með takmörkunum á innflutningi búvöru frá honum.

Í bandalagi landbúnaðarríkja eru meðal annars Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada og Argentína, sem eiga það sameiginlegt með Bandaríkjunum að geta framleitt miklu ódýrari búvöru en Evrópa. Eðlilegt er, að heimsbyggðin fái að njóta árangurs landbúnaðarríkjanna.

Fulltrúar Evrópubandalagsins eru ekki að gæta hagsmuna neytenda í Evrópu. Þeir eru að gæta þröngra sérhagsmuna í landbúnaði. Það er nákvæmlega sama staða og er hér á landi. Spurningin er svo, hve lengi Evrópubandalagið og Ísland komast upp með búvöruverndina.

Sá siður hefur komizt á í fjölþjóðlegum viðræðum um tolla og viðskiptahindranir að líta á málin með augum hinnar gömlu kaupauðgisstefnu, sem þó er vitað, að er röng. Samkvæmt þessari stefnu eru samningsaðilar sífellt að ræða um gagnkvæmni í minnkun hindrana.

Það fáránlega við þessa stefnu er, að ríki, sem verndar sig fyrir innflutningi einhverrar vöru, skaðar sjálft sig meira en það skaðar hin ríkin, sem missa af þessum útflutningi. Verndarríkið skaðar kjör neytenda sinna og býr til óraunhæft viðskiptaumhverfi innan ríkisins.

Það er víðar en á Íslandi, að ráðamenn skilja ekki, að einhliða lækkun tolla og annarra viðskiptamúra er gróðavænleg aðgerð, jafnvel þótt ekki fylgi henni gagnkvæm aðgerð af hálfu annarra ríkja. Gagnkvæm lækkun er arðbærust, en einhliða lækkun er arðbær.

Í rúmlega fjóra áratugi hafa helztu viðskiptaríki heims staðið í þjarki í tollasamtökunum GATT. Efni þjarksins hefur verið að ná fram gagnkvæmni í minnkun viðskiptahindrana. Enginn virðist skilja, að þeir græða mest, sem fyrstir eru til að rífa niður múrana.

Múralaust ríki eflir hag neytenda sinna og færir áherzlur atvinnulífs frá úreltum og samkeppnisóhæfum greinum til vaxtargreina. Þannig verður múralaust ríki að auðugu ríki með öflugum atvinnuvegum og góðum lífskjörum, en vernduðu ríkin haldast fátæk.

Fyrr eða síðar komast gæzlumenn Evrópubandalagsins að því, að hagsmunir ríkja þess í heild eru mikilvægari afmörkuðum sérhagsmunum landbúnaðar. Fyrr eða síðar mun Ísland standa andspænis kröfunni um, að brotnir verði verndarmúrar hefðbundins landbúnaðar.

Bezt fyrir okkur væri að byrja að græða strax og láta ekki seint og um síðir draga okkur inn í nútíma viðskiptahætti, þar sem engar hindranir eru í vegi.

Jónas Kristjánsson

DV