Potturinn og pannan

Veitingar

Eitt ódýrasta af þeim veitingahúsum landsins, sem bjóða ætan mat, er Potturinn og pannan við Nóatún. Þar kostar maturinn 890-990 krónur og felur í sér súpu, salatborð, heitan rétt, úrval eftirrétta og kaffi. Þetta slær meira að segja við Laugaási, þar sem súpa, aðalréttur, eftirréttur og kaffi kostar 1000 krónur, sem er ódýrt.

Stenzt jöfnuð
við Austurlönd

Þetta lága verð í Pottinum og pönnunni og í Laugaási gildir bæði í hádeginu og á kvöldin. Lágt verð ýmssa austurlenzkra veitingastaða í Reykjavík er hins vegar aðeins í boði í hádeginu á þeim stöðum, sem ég hef heimsótt. Þá er það svipað og verðið hér að ofan. Á kvöldin breytast austurlenzku matstofurnar hins vegar í miðlungsstaði eða fremur dýra.

Reykjavík fylgir ekki þeirri reglu heimsborga, að fólk fari á kvöldin á þriðja heims matstaði til að fá ódýran veizlumat. Vinsældir slíkra veitingatstofa í London, New York og öðrum heimsborgum byggjast á, að þar fæst beztur matur miðað við verð. Hér fara menn hins vegar í austurlenzkar matstofur til að fá öðru vísi mat en venjulega, en ekki til að spara. Í Pottinum og pönnunni gera menn það.

Potturinn og pannan hefur ekki hátt um sig í brekkunni upp á Háaleiti. Ég efast um, að nokkuð skilti sé með nafni staðarins. Eftirlíkingar af pottum og pönnum eiga hins vegar að gefa til kynna nafnið og benda á, að veitingahús sé innan dyra. Einhvern veginn virðast erlendir ferðamenn rata þangað eins og eftir eðlisávísun. Þeir eru þar fjölmennir á sumarkvöldum.

Allt innifalið
í verðinu

Matseðill dagsins er birtur á spjaldi innan við útidyrnar. Venjulega er um að velja tvær súpur, tæra og hveitilagaða, og tvo aðalrétti, fisk og kjöt. Þessu fylgir frjáls aðgangur að brauðborði, salatborði og eftirréttaborði. Það kostar 650 krónur að fá bara súpu, salat, brauð og kaffi; 850 krónur að fá súpu, salat, brauð, eftirrétt og kaffi; 510 krónur að fá eftirrétt og kaffi, en öll rispan kostar 890 krónur eða 990 krónur og kannski upp í 1290 krónur, ef valin er lambasmásteik í aðalrétt.

Svo er líka fastaseðill í Pottinum og pönnunni. Miðjuverð sjö fiskrétta er 1290 krónur og þriggja kjötrétta 1590 krónur og fylgir þá öll rispan með í verðinu. Þar að auki er hægt að fá smárétti, grillrétti, barnarétti og ýmsa sérrétti. Vínlistinn er ómerkilegur, en telur þó Riesling Hugel í hvítvíni og Santa Cristina í rauðvíni.

Þegar ég kom í hádegi, stóð valið á seðli dagsins milli stórlúðupiparsteikur og beikonbúðings. Um kvöldið mátti kjósa sér blandaðra sjávarrétti eða lambasmásteik. Í hádeginu átti ég kost á grænmetisseyði eða blaðlaukssúpu og um kvöldið gat ég valið kjúklingaseyði eða “bonne famme” súpu.

Betra salat
í Hagkaup

Nokkrar tegundir af ágætu brauði voru á brauðborðinu. Salatborðið var frambærilegt, en tæplega eins áreiðanlegt og til dæmis í verzlunum Hagkaups. Í annað skiptið voru sveppir gamlir og tómatar þornaðir, en í hitt skitið voru sveppirnir góðir og tómatarnir í lagi.

Á eftirréttaborðinu voru dósaávextir og Royal-búðingur, karamellubúðingur í hádeginu og súkkulaðibúðingur um kvöldið. Á því borði var einnig þrenns konar ís og þeyttur rjómi, mjög frambærilegur eftirréttur. Um kvöldið var líka boðið upp á tvenns konar tertur. Svamptertan var ekki merkileg, en ostatertan var ágæt. Kaffið var í lagi.

Þessi sjálfsafgreiðsluborð eru hlið við yfir þveran sal. Andspænis þeim er afgreiðsluborð, þar sem gestir pantar sér það, sem val er um. Súpuna taka menn með sér til borðs, en fá aðalréttinn síðar lagðan á borð hjá sér.

Grænmetiseyði var sterkt og gott. Kjúklingaseyði var líka sterkt og fremur gott. Bonne famme súpa með skinkubitum var hins vegar ofsalega þykk af hveiti og ekki sérstaklega lystug.

Frambærileg
matreiðsla

Stórlúðupiparsteik var fremur mikið elduð, borin fram með góðri og fremur sterkri grænpiparsósu og ofbökuðum kartöflum í álpappír og mikið soðnum hrísgrjónum. Matreiðslan var ekki vönduð en frambærileg á íslenzka vísu.

Sama er að segja um blönduðu sjávarréttina, sem bornir voru fram á heitri pönnu. Þetta var gamalkunn eldun undir ostþaki. Í réttinum voru mest rækjur og kræklingur, hvort tveggja frambærilegt. Eini gallinn var úthafsrækja, sem sett var til skrauts á barminn. Hún var komin með ellilykt. Með þessu voru gulrætur úr dós og bökuð kartafla í álpappír.

Lambasmásteikin var allt of grá, þurr og seig. Hún var með villibráðarsósu, soðnum perum, bakaðri kartöflu og gulrótum úr dós. Ég prófaði líka lambapiparsteik af fastaseðli hússins. Greinilega var betur til hennar vandað í eldhúsinu. Hún kostaði líka meira, 1590 krónur. Hún var örlítið bleik að innan, hvorki þurr né seig.

En hún var líka borin fram með gulrótum úr dós og bakaðri kartöflu. Allir aðalréttir hússins virðast vera bornir fram með bakaðri kartöflu og gulrótum úr dós. Þetta er nokkuð einhæft, en heldur óneitanlega niðri verði.

Mikilvægt
hlutverk

Heldur hefur verið dregið úr hinni sérkennilegu innréttingu, sem áður einkenndi Pottinn og pönnuna. Áberandi eru grænir veggir með ófrágengnum naglagötum, brúnir bitar og súlur, svo og eins konar gluggatjöld í fölsku lofti. Fólk situr á góðum stólum og borðar við traust harðviðarborð með koparplötum.

Potturinn og pannan er ekki Mekka matargerðarlistar. En þetta er mjög ódýrt, traust menningarsetur, sem gegnir mikilvægu hlutverki á öld skyndibitastaða. Þarna er hægt að fá sér þríréttaðan mat í hefðbundnum siðmenningarstíl á verði, sem fólk ræður við, ef það á annað borð borðar ekki heima.

DV