Fylgismenn spámannsins

Greinar

Kalda stríðinu er rétt lokið, þegar blika nýrrar heimsstyrjaldar sést við sjóndeildarhring. Arabar eru að byrja að rísa upp gegn Vesturlöndum. Þótt Saddam Hussein Íraksforseti sé einangraður á yfirborðinu, nýtur hann mikils fylgis meðal almennings í löndum íslams.

Arabíski heimurinn hefur ekki vísað trúarbrögðum sínum til hliðarsætis eins og vestræni heimurinn gerði á átjándu og nítjándu öld. Arabíski heimurinn er ekki heldur aðili að tæknibyltingu nítjándu aldar. Hugmyndafræðileg kreppa einkennir arabíska heiminn.

Brezkur her var í Egyptalandi til 1956 og franskur í Alsír til 1962. Þótt herir Vesturlanda hafi í þrjá áratugi ekki haft aðsetur í löndum íslams, hafa þau troðið hálf-vestrænu ríki hryðjuverkamanna, Ísrael, inn að hjarta íslams og gert Palestínumenn landlausa.

Rosaleg reiði er meðal íslama í garð Vesturlanda og leppríkis þeirra í Ísrael. Íslamar telja sig öðrum fremri og trú sína öðrum siðum fremri. Samt eru þeir annars flokks í heiminum. Gremjan út af þessu fær útrás í afturhvarfi til hreintrúar og ofstækis og hryðjuverka.

Arabíski heimurinn nær frá Súdan og Nígeríu í Afríku til Azerbajdzhan og Tadzhíkístan í Sovétríkjunum. Hann nær frá strönd Atlantshafs til Persaflóa við Indlandshaf. Á þessu svæði, sem er hjarta íslams, búa fleiri menn en í Bandaríkjunum, kvartmilljarður.

Fólk hefur eina trú og eina tungu á þessu svæði. Allir tala arabísku sem aðalmál, nema Kúrdar og Berbar. Samkvæmt evrópskum þjóðastaðli ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að allir arabar væru í einu ríki. 250 milljón manna arabaríki væri eitt af heimsveldunum.

Það er líka draumur margra að losna við sjeikana og emírana og fá einn sterkan arftaka Múhameðs spámanns. Saddam Hussein gegnir um þessar mundir því hlutverki að vera sameiningartákn arabískra alþýðumanna og menntamanna. Hann nýtur fylgis undir niðri.

Arabíski heimurinn er í upplausn og uppreisn. Fylgismenn spámannsins berjast í Súdan í Afríku og Kasmír í Indlandi. Þeir ráðast gegn Rauða hernum í nokkrum ríkjum Sovétríkjanna og gegn Serbaher í Kosovo í Júgóslavíu. Þeir reka hernað í Afganistan og Líbanon.

Sumir menntamenn í löndum Múhameðs vilja taka upp vestræna hugmyndafræði lýðréttinda og mannréttinda. Hinum vex þó fiskur um hrygg, sem vilja afturhvarf til kóransins sem lögbókar og til hins sterka harðstjóra, sem leiði Allah á ný til hásætis í heiminum.

Egyptaland hefur löngum verið talið veikast arabaríkja fyrir vestrænni siðmenningu. Jafnvel þar er ofsatrú að breiðast út í háskólum. Þegar Mubarak verður myrtur, má alveg eins búast við sigurgöngu einhvers Saddams Husseins eða erkiklerks á borð við Khomeini.

Í þessu innra stríði eiga Vesturlönd að styðja við bakið á þeim aröbum, sem vilja fara hóflega í trúarbrögð eins og Vesturlandamenn hafa lært, og sem vilja, að heimur íslams verði aðili að vestrænni upplýsingaöld, vestrænu lýðræði og vestrænum mannréttindum.

Jafnframt eiga Vesturlönd að gera ráð fyrir þeim möguleika, að arabíski heimurinn hafni vestrænum sjónarmiðum og sameinist undir einum harðstjóra, sem yrði þá eins konar Hitler þess tíma. Vesturlönd verða að gera sér grein fyrir, hvernig þau muni bregðast við.

Í afstöðunni til uppreisnar íslams sækja Vesturlönd mikinn styrk í endurkomu Austur-Evrópu inn í upplýsingaöld lýðréttinda og mannréttinda á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV