Klukkan tifar

Greinar

Bandaríkin hafa sýnt mátt sinn við Persaflóa. Hraði herflutninganna hefur komið á óvart. Einnig var óvænt, hversu mikinn herafla þeim hefur tekizt að flytja á vettvang. Þótt önnur ríki hafi sýnt lit, eru það Bandaríkin, sem hafa reynzt brjóstvörnin gegn Saddam Hussein.

Þetta breytir valdastöðunni. Í vetur virtust Bandaríkin vera meira eða minna utangátta, þegar Vestur- Þýzkaland og Evrópubandalagið tóku forustu í málum Austur-Þýzkalands og Austur-Evrópu. Eftir veturinn var sagt, að Bandaríkin væru bara eitt veldi af mörgum.

Þá var líka bent á Sovétríkin og sagt með nokkrum rétti, að hernaðarlegur máttur væri lítils virði í samanburði við efnahagslegan mátt. Upp væri runninn tími efnahagsvelda á borð við Vestur-Þýzkaland og Japan, sem verðu tiltölulega litlu fjármagni til hermála.

Nú hafa menn hins vegar vaknað upp við, að endir kalda stríðsins jafngildir ekki, að hin mikli kaupsýslufriður sé runninn upp. Um allan heim er mikið af herskáum smákóngum, sem safna hættulegum vígtólum og leita færa til að kúga umheiminn með vopnaskaki.

Atlantshafsbandalagið er komið nálægt leiðarenda í ætlunarverki sínu í varðveizlu friðar í Evrópu. Í stað þess að leggja bandalagið niður, kemur sterklega til greina, að það víkki verksvið sitt og hefji friðargæzlu í tengslum við olíuframleiðslusvæði Miðausturlanda.

Ekki er hægt að láta Bandaríkin bera þorra byrðanna af því að mæta harðstjóra, sem skekur efnavopn, safnar sér í kjarnavopn og tekur útlendinga að gíslum. Vestur- Evrópa og Japan verða að taka sjálf þátt í að gæta eigin lífshagsmuna. Hver veit, hvar sprengja Saddams fellur?

Tíminn vinnur gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Ef Saddam Hussein heldur Kúvæt og reynir að þreyja þorrann, fer að bresta í bandalaginu gegn honum. Íran og Sýrland eru til dæmis ekki líkleg til að verða í langvinnu vinfengi við Vesturlönd.

Líklegt er, að göt komi á hafnbannið. Við sjáum nú þegar, að Jórdanía reynir að brjóta það. Einnig getur komið að því, að trúhneigðir furstar á Arabíuskaga þori ekki lengur að hafa vantrúarher í löndum sínum og vilji heldur reyna að semja við Saddam Hussein.

Á næstu vikum mun Saddam Hussein safna saman Vesturlandabúum, sem ekki hafa gefið sig fram í Kúvæt, og koma þeim fyrir í nágrenni hernaðarlega mikilvægra staða í Írak, svo sem flugvalla, herstöðva, efnaverksmiðja og tilraunaverkstæða kjarnorkuvopna.

Að því loknu er næsta víst, að Saddam Hussein hefur tryggt sig í sessi. Hann heldur herfangi sínu í Kúvæt og bíður betra færis til næstu árásar, þegar hann hefur náð sér í kjarnorkuvopn. Núverandi pattstaða jafngildir þess vegna ósigri bandalagsins gegn honum.

Með hverjum deginum, sem líður, verður erfiðara að taka hina brýnu ákvörðun um að eyðileggja flugvelli, herstöðvar og vopnasmiðjur Íraks, flugflota þess og skriðdrekaflota. Með hverjum deginum, sem líður, verður erfiðara að rjúfa hina óhagstæðu pattstöðu.

Bandaríkin hafa unnið kraftaverk með því að koma 100 þúsund manna herliði í skyndingu til Miðausturlanda. Samstaða heimsins gegn Sddam Hussein er næsta eindregin. Sovétríkin eru í báti með Vesturlöndum og sama er að segja um Tyrkland og Egyptaland.

Allt þetta verður til einskis, ef Saddam Hussein fær svigrúm til að halda áfram að undirbúa næstu lotu í stríði sínu, sem er stríð siðleysis gegn siðmenningu.

Jónas Kristjánsson

DV