Umboðs sé aflað

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið hefur í auknum mæli tekið að sér hreina hagsmunagæzlu hefðbundins landbúnaðar. Starfsmenn ráðuneytisins með stjórann í broddi fylkingar halda uppi þeim vörnum, sem áður voru taldar á verksviði hagsmunasamtaka í Bændahöllinni.

Dæmigert er, að hagfræðingi hagsmunasamtaka landbúnaðarins var kippt inn í ráðuneytið til að aðstoða það við gerð búvörusamnings við hagsmunasamtökin. Í ráðuneytinu semur hann greinar í fjölmiðla um, að vondir menn séu að abbast upp á landbúnaðinn.

Þegar landbúnaðarráðuneytið er að semja við hagsmunasamtök landbúnaðarins eru þessir aðilar í rauninni sameiginlega að semja við sjálfa sig. Landbúnaðarráðuneytið gætir ekki hagsmuna neytenda eða skattgreiðenda, heldur hins hefðbundna landbúnaðar.

Fyrir síðustu kosningar varð niðurstaða þessa innanhússmáls sú, að lagðar voru á neytendur og skattgreiðendur byrðar, sem bundu hendur ríkisstjórna næsta kjörtímabils. Þetta var fjögurra ára samningur. Nú er verið að gera enn lengri samning, til sex ára.

Ef landbúnaðarráðherra kemst upp með að gera nýjan búvörusamning við sjálfan sig, bindur hann ekki bara hendur ríkisstjórna á næsta kjörtímabili, heldur einnig fram á þarnæsta tímabil. Hann skuldbindur framtíðina fyrir rúmlega hundrað milljarða króna.

Ráðherrann telur sig hafa umboð til að gera við sjálfan sig samning, sem nemur nálægt 20 milljörðum króna á hverju ári. Þar af verða 8 milljarðar lagðir á herðar skattgreiðenda á fjárlögum og 12 milljarðar lagðir á herðar neytenda í loforði um innflutningsbann.

Ekki er ljóst, hvar ráðherrann telur, að siðleysi byrji. Gæti hann til dæmis upp á eigin spýtur samið til 100 ára um 100 milljarða króna fyrirgreiðslu á ári Getur hann sett Ísland í pant í útlöndum vegna máls þessa Hver eru takmörk ráðherravalds í hans augum

Öðrum en hagsmunagæzlumönnum er ljóst, að nú sem fyrr er siðlaust að skylda nýjan þingmeirihluta og nýja ríkisstjórn eftir kosningar til að fórna milljörðum króna á hverju ári í þetta umdeilda mál. Forsætisráðherra hefur raunar óbeint fallizt á þetta sjónarmið.

Alþýðuflokkurinn er eini flokkurinn, sem hamlar gegn yfirgangi hagsmunagæzlu hins hefðbundna landbúnaðar. Hann bar ekki ábyrgð á síðasta búvörusamningi og mótmælir núna samningsdrögum landbúnaðarráðuneytisins. Það kann að duga til að fresta málinu.

Ekkert hald er hins vegar í Sjálfstæðisflokknum, er bar ábyrgð á búvörusamningnum, sem nú er í gildi. Eftir kosningar mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki þjóna hagsmunum neytenda og skattgreiðenda, heldur þeirra, sem telja sig hafa hag af nýjum búvörusamningi.

Lýðræðislega er rétt, að kaleikurinn sé færður Sjálfstæðisflokknum eða hvaða þeim flokkum, sem eftir kosningar taka þátt í ríkisstjórn. Þá hafa einhverjir fengið umboð kjósenda til að ofanstýra, miðstýra og sukka með hag skattgreiðenda og neytenda í fjögur ár.

Í næstu kosningum hafa kjósendur tækifæri til að lýsa trausti á þá mörgu stjórnmálamenn, sem vitað er, að muni í stórum dráttum styðja núgildandi landbúnaðarstefnu. Eftir þá yfirlýsingu kjósenda, en ekki fyrr er lýðræðislega heimilt að velta byrðunum yfir á þá.

Niðurstaðan verður skaðleg, hvor leiðin sem valin verður. En mikill munur er á, hvort lýðræðislega og siðlega er staðið að röngum ákvörðunum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV