Þjóðarsátt eymdarinnar

Greinar

Atvinnuleysið er ein af nokkrum skuggahliðum þjóðarsáttarinnar, sem ríkisstjórnin og samtök vinnumarkaðarins gerðu með sér, meðal annars til að halda niðri verðbólgu. Atvinnuleysi er núna meira á Íslandi en verið hefur um rúmlega þriggja áratuga skeið.

Atvinna og verðbólga hafa tilhneigingu til að fara saman, þótt ekki sé sú regla algild. Áratugum saman hefur þjóðfélagið hér á landi verið rekið með meiri atvinnu og meiri verðbólgu en í nágrannalöndunum. Nú er hins vegar tími minni atvinnu og minni verðbólgu.

Svo illa hefur um langan aldur verið talað um verðbólgu, að einhvern tíma hlaut að koma að núverandi þjóðarsátt, sem felst í, að þjóðin taki á sig hvaða böl sem er, bara til að halda verðbólgunni niðri. Verðbólguvandinn var leystur með öðrum og stærri vandamálum.

Verðbólga minnir á hitann í mannslíkamanum, þegar veikindi ber að garði. Of hár hiti er merki um sjúkdóm, en er ekki sjúkdómurinn sjálfur. Lækningin felst í að fást við sjúkdóminn sjálfan og þá lækkar hitinn af sjálfu sér. Hitastillandi lyf eru veigalítil lækningatæki.

Vont er að fá atvinnuleysi í stað verðbólgu. Það er ekki aðeins vont fyrir þá, sem fyrir því verða. Það er líka afleitt fyrir ungt og baráttuglatt þjóðfélag, þegar atvinnuleysi verður varanlegt. Þá hefur það skaðleg áhrif á hugarfar fólks og skerðir lífsbaráttuþrek þess.

Önnur slæm afleiðing velgengninnar í baráttu þjóðarsáttarmanna við verðbólguna er vaxandi ójöfnuður í landinu. Á undanförnum misserum hafa laun forstjóra hækkað helmingi hraðar en laun láglaunafólks. Við siglum hraðbyri inn í afar stéttskipt þjóðfélag.

Við sjáum alls staðar í kringum okkur merki vaxandi stéttaskiptingar. Annars vegar er stór hluti þjóðar innar, sem lifir í vellystingum praktuglega, á hverju sem gengur. Menn búa og aka flott og eru sífellt í laxveiðum eða á ferðalögum, alveg eins og hugurinn girnist.

Hins vegar er annar hluti þjóðarinnar, sem varla á til hnífs og skeiðar. Þar má telja margar einstæðar mæður, fólk á taxtalaunum og atvinnuleysingja. Börn þessa fólks hafa ekki nándar nærri sömu aðstöðu til mennta og börn hinna, sem eru ofan á í lífinu.

Í lífsþægindaflokkinn geta menn komizt fyrir ýmissa hluta sakir, með mikilli vinnu, með hentugri menntun og einkum þó með aðstöðu, til dæmis gagnvart kerfinu. Íslenzkt þjóðfélag er svo miðstýrt, að hagkvæmur rekstur skiptir fyrirtæki minna máli en aðgangur að kerfi.

Þjóðarsáttin felur í sér, að ríkisstjórnin og samtök vinnumarkaðarins berjast afar stíft gegn launahækkunum, sem gætu komið af stað verðbólgu. Í því skyni gerir ríkisstjórnin marklausa kjarasamninga, sem hún síðan svíkur og hirðir ekki um, hvað dómstólar segja.

Þjóðarsáttin er greinilega afar sterkt sameiningartákn kerfisins, úr því að hún fær ráðherra til að gereyða trausti, sem byggist upp á löngum tíma. Ráðherrar þurfa í framtíðinni að gera aðra samninga. Það hlýtur að verða erfitt í ljósi reynslunnar frá liðnu sumri.

Athyglisvert er, að í þjóðarsáttinni koma hinir stóru á vinnumarkaðinum ekki fram sem umboðsmenn undirstéttarinnar, láglaunafólks, taxtafólks, einstæðra mæðra og atvinnuleysingja. Með því að einblína á verðbólgu stuðla þeir að stéttaskiptingu og atvinnuleysi.

Þjóðarsáttin er sátt ríkisstjórnar og samtaka vinnumarkaðarins um að leysa engan kerfisvanda, heldur halda niðri verðbólgu, á kostnað lífskjara hinna smáu.

Jónas Kristjánsson

DV