Bæjarins bezti fiskur

Veitingar

Þegar veitingastofa heitir “Bæjarins bezti fiskur” er verið að búa til væntingar, sem geta verið gróðavænlegar á líðandi stund, en hljóta að hefna sín, ef staðurinn stendur ekki undir nafni. Því er eins gott, að reynt sé að standa við stóru orðin, ef eigendur treysta sér til að nota nafn á borð við þetta.

Rúmlega
20 sæti

Fyrstu hughrifin á staðnum eru mjög jákvæð. Þetta er agnarlítil matstofa, tekur aðeins rúmlega 20 manns í sæti. Ég man í bili ekki eftir eins lítilli matstofu hér á landi. Til er alþjóðlegt lögmál um gæði veitingahúsa, sem segir, að þau séu því betri sem stólarnir séu færri. Þar á ofan er sagt, að fari stólarnir yfir 36, komist staðurinn ekki í fremstu röð veitingahúsa, því að kokkurinn hafi þá ekki lengur yfirsýn. Og Bæjarins bezti fiskur er örugglega langt innan við þessi mörk.

Þessi litla stofa er við Naustin, litla götu milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu, á ská andspænis Gauki á Stöng. Hún er innréttuð á mjög einfaldan hátt í ljósum stíl margra erlendra sjávarréttahúsa. Veggir og loft eru hvít og ljós fura er í veggklæðingu. Naktar ljósaperur hanga í loftinu. Á veggjum er stórt landhelgiskort, fiskiplakat, net, humargildra og fisklíkön. Til að tryggja, að maður viti strax, að þetta sé fiskréttahús, er stórt fiskabúr beint innan við útidyrnar.

Eina mótvægið við kuldalegt útlit staðarins felst í skrautlegum gluggatjöldum, sem hengd eru upp á óvenjulegan hátt. Þau eru í stíl við stórkarlalegt auglýsingaskilti staðarins fyrir dyrum úti.

Gestir sitja á þægilegum stólum í eins hefðbundnum stíl og hægt er að hafa þá. Matast er við tréborð með hvítum dúkum og pappírsþurrkum. Allt er afar einfalt.

Matseðillinn
var alltaf eins

Næstu hughrifin eru líka jákvæð. Matseðillinn kemur og er afar stuttur. Þar eru taldar upp tvær súputegundir dagsins, fimm fiskréttir dagsins og tveir eftirréttir dagsins. Það er allt og sumt, fyrir utan vín og kaffi. Auðvitað hlýtur þetta að vera frábært hús, sem bara hefur stuttan seðil dagsins og engan fastaseðil.

Það er ekki fyrr en í næstu heimsókn, að bakslagið kemur. Þá opnar maður aftur seðilinn og sjá: Hann er nákvæmlega eins og síðast. Og í þriðja skiptið er hann ennþá eins. Þetta er sjálfur fastaseðillinn, sem er eins í hádeginu og á kvöldin, viku eftir viku. Og það í fiskréttahúsi.

Ástæðan fyrir stutta seðlinum var alls ekki sú, að þetta væru fisktegundirnar í afla dagsins. Þetta var ekki dagur rauðsprettu, steinbíts, heilagfiskis og skötusels. Þetta voru einfaldlega bara réttirnir fimm, sem kokkurinn hafði lært að elda.

Svona getur himinninn hrunið, þegar maður er búin að ímynda sér alls konar dýrð eftir að hafa séð, hversu hátt er reitt til höggs í nafngift staðarins. Svo virðist, sem ekki sé gert ráð fyrir, að menn komi oftar en einu sinni í heimsókn. Þegar ég sótti hann heim, voru gestir yfirleitt erlendir ferðamenn, sem sennilega er ekki reiknað með, að komi aftur.

Þjónustan á staðnum er til fyrirmyndar. Hún er líkleg til að afla staðnum vinsælda, þægileg og vingjarnleg. Minna máli skiptir, þótt hún haldi fram, að hvítvínið Veronese, þolanlegt borðvín hússins, sé franskt.

Eldað stuttaralega
og harkalega

Fiskisúpa reyndist vera sítrónukryddað humarsoð með sveppum og tiltölulega safaríkum fiskbitum, nokkuð góð súpa og mjög heit. Karrísúpa var enn betri, mjög sterk og heit, með kjúklingabitum og hrísgrjónum. Með súpunni er þurrt brauð.

Í þriðja skiptið, sem ég kom, fékk ég smjör með brauðinu, en aðrir gestir ekki. Vonandi stafaði það ekki af því að kokkurinn bæri kennsl á skriffinn, heldur af því að honum þætti svo vænt um fastagesti.

Reykt ýsa reyndist vera nokkuð góð, borin fram með vermicelli-pasta, bakaðri kartöflu og hrásalati. Bökuð kartafla var með öllum fiskréttum staðarins. Hrásalatið var líka hið sama, yfirleitt heldur aldurhnigið jöklasalat.

Skötuselur var fremur safaríkur, borinn fram með of miklu raspi og smjöri, mildri smjörsósu, jarðarberjum og avocado. Þetta var skemmtilegt meðlæti. Fiskurinn sjálfur var líka góður, en rasphjúpurinn var of harður.

Steinbítur var líka fremur meyr, borinn fram með góðri sósu. Meginkryddið var fersk steinselja, en lítið var um hvítlauk, þótt rétturinn héti “provencal”.

Rauðspretta heilsteikt var líka safarík, en með alltof harðri og stökkri skorpu, greinilega elduð afar snöggt og harkalega. Með henni var afar góð smjörsósa.

Yfirleitt var mildilega farið með eldunartíma í Bæjarins bezta fiski, en hastarlega með hitastigið.

Ferskir ávextir í eftirrétt voru aðallega jarðarber, kiwi og melóna. Þetta var mjög frambærilegt. Lakari var eplakaka, kölluð heit, en borin fram nærri köld. Það var einfaldlega hversdagslegur svampbotn með smávægilegu eplalagi, ekki ætlaður til hitunar, þótt þeirri aðferð sé beitt í Bæjarins bezta fiski. Ég held, að hitun á kökum eigi ekki við nema grundvöllurinn sé annar, til dæmis raunveruleg eplabaka. Svampbotn hentar engan veginn til þessa brúks.

Fiskabúr inni,
dýragarður úti

Sama verð er í hádegi og á kvöldin. Súpa kostaði 390 og 450 krónur, aðalréttir 940-1160 krónur, eftirréttir 420 og 590 krónur. Þetta reiknast mér til, að sé miðlungsverð að kvöldi til og dýrt í hádeginu, þegar hægt er að fá betri fiskmálstíðir á mun lægra verði í landsins beztu veitingastofum.

Risastórir gluggar snúa út að götunni. Þar innan við geta útlendingar setið í hlýjunni og virt fyrir sér dauðadrukkna Íslendinga bókstaflega veltast um götuna fyrir utan strax klukkan sjö að kvöldi í miðri viku. Ég hef aldrei skilið, hvers vegna fjölmennt lögreglulið borgarinnar kemst upp með að afhenda gamla miðbæinn grenjandi fyllibyttum til umráða um leið og skrifstofum er lokað fyrir kvöldmat. Þetta er aðeins 200 metrum frá sjálfri miðbæjarstöð lögreglunnar. Það er eitthvað bogið við þetta kerfi, nema það sé haft útlendingum til skemmtunar, svo að þeim líði eins og þeir séu í villidýradeild dýragarðsins.

Í Bæjarins bezta fiski er fiskabúrið innan dyra, en dýragarðurinn fyrir utan. Sjálfur er staðurinn frambærilegur, en nokkuð dýr og hefði betur staðið undir öðru nafni: Bæjarins minnsti veitingastaður.

Jónas Kristjánsson

DV