Röskun í landbúnaði

Greinar

Oddamenn bænda á þingi stéttarsambands þeirra virtust gera sér grein fyrir, að bændum mundi fækka í kjölfar minnkandi sölu á búvöru. Í ályktun þeirra er talað um rúmlega þúsund manna fækkun í sauðfjárrækt. Er þá ekki gert ráð fyrir innflutningsfrelsi.

Þeir virtust líka gera sér grein fyrir, að bann við innflutningi á búvöru kunni að verða linað í náinni framtíð því að þeir ályktuðu um, að jöfnunargjald yrði sett á innfluttu vöruna. Líklega grunar þá, að neytendur og skattgreiðendur muni einhvern tíma varpa af sér okinu.

Þótt þeir geri sér grein fyrir, að vandinn er til, vanmeta þeir hann. Þeir ímynda sér til dæmis, að kúabúskapur sé í jafnvægi, þótt skynsamlegt sé að flytja inn miklu ódýrari og fjölbreyttari osta og margfalt ódýrara smjör en hér er framleitt í skjóli einokunar.

Oddamenn bænda eru enn þeirrar skoðunar, að skipulag að ofan muni bjarga hag atvinnugreinarinnar, þótt hún sé nú í rústum eftir þriggja áratuga ríkisrekstur. Þeir ályktuðu um “styrkari heildarstjórn” mjólkuriðnaðarins og vilja fá stjórn á ýmsar hliðarbúgreinar.

Framleiðsla á svínakjöti er utan þessa kerfis, enda er verð á svínakjöti það búvöruverð, sem næst kemst verði á alþjóðlegum markaði. Slagsmálin um landbúnaðarstefnuna hafa undanfarin misseri einkennzt af tilraunum til að koma einokun á svínakjötið.

Landbúnaðarráðherra er töluvert afturhaldssamari en oddamenn bænda eru almennt. Hann hefur tekið eftir, að blómleg sala er á hrossum til útlanda. Hann hefur lýst yfir, að brýnt sé að koma opinberu skipulagi á þessa sölu, því að milliliðir maki krókinn.

Hingað til hefur ríkið lítið sinnt útflutningi hrossa, nema að skattleggja hann til að halda uppi stóðhestastöð í Gunnarsholti, sem fræg varð fyrir nokkrum árum fyrir að senda hross í dóma á óvenjulega þungum skeifum og botnum til að hækka kynbótaeinkunnir.

Einnig borgar ríkið dómskerfi Búnaðarfélags Íslands. Það kerfi tekur lítið sem ekkert mið af söluhæfni hrossa eins og hún endurspeglast í markaðsverði, heldur byggist á meira eða minna óáþreifanlegum smekk ríkisstarfsmanna, sem standa í einkastríði við hrossabændur.

Verra er þó, ef aukið skipulag af hálfu ríkisins mun felast í, að bændum verði ýtt út í hrossarækt eins og þeim var ýtt út í loðdýrarækt fyrir nokkrum árum. Hrossarækt er afar flókin listgrein, sem ekki verður arðbær öðrum en þeim, sem kunna vel til verka.

Sama er að segja um ferðaþjónustu bænda. Þótt mörgum ferðabændum hafi gengið vel og þeir hafi gott samstarf um áhrifaríka sölumennsku, er ekki þar með sagt, að hver sem er geti farið út í ferðaþjónustu. Það er vandasöm sérgrein, sem ekki dugir að ýta mönnum út í.

Ef meira eða minna óviðbúnum bændum er ýtt út í að fara að reyna að lifa á hrossarækt eða ferðaþjónustu, er hætt við, að það skaði ekki aðeins þá sjálfa, heldur dragi einnig niður þá, sem fyrir eru í greininni. Það mun bara búa til enn eitt ríkiskerfi offramboðs.

Tilraunir ríkisins og hagsmunastofnana landbúnaðarins til að koma kerfi sínu yfir á svínabændur, hrossabændur og ferðabændur munu á þeim sviðum leiða til hliðstæðra vandræða og nú tröllríða bæði bændum og þjóðinni í sauðfjárrækt, nautgriparækt og lðdýraækt.

Öllum má vera ljóst, að mikil röskun verður í landbúnaði. Í allra þágu er, að hún fái að gerast hratt og í friði, án byrða á þreytta neytendur og skattgreiðendur.

Jónas Kristjánsson

DV