Keilisnes eða Kanada

Greinar

Lokið er langvinnu sjónarspili um staðarval nýs álvers og farið að tala um það, sem máli skiptir, orkuverðið. Svo skammt er það mál komið, að seðlabankastjóri upplýsti í fréttaviðtali, að forsætisráðaherra gæti ekki haft skoðun á því, þar sem hann vissi lítið um það!

Ef viðræður um orkuverð til nýs álvers eru svo skammt komnar í fyrstu viku septembermánaðar 1990, að forsætisráðherra hefur enn ekkert í höndum til að byggja á neinar skoðanir um verðið, á mikið vatn eftir að renna til sjávar, áður en álverið verður reist.

Fyrir löngu gátu menn gengið að því vísu, að hinir erlendu eigendur álversins mundu telja heppilegast að reisa það á Keilisnesi suður með sjó. Sérfræðingaskýrslan um staðarval er svo eindregin, að eigendurnir hljóta að hafa vitað fyrir löngu, hvert hún mundi stefna.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið vakin athygli á, að ósæmileg væru vinnubrögð iðnaðarráðherra í sjónarspilinu um staðarval. Að tilhlutan ráðuneytisins hefur verið búið til um álverið langvinnt undirboða-kapphlaup gróðafíkinna sveitarfélaga.

Þetta var auðvitað í þágu hinna erlendu eigenda, sem hafa verið að dunda við að tefla saman sveitarfélögum, ekki til að velja stað, heldur til að ná sem hagkvæmustum kjörum á Keilisnesi. Iðnaðarráðuneytið hefur komið fram sem sjónhverfingamaðurinn í þessu sjónarspili.

Langt er síðan ljóst var, að Karl Steinar Guðnason gæti bezt tryggt álverinu vinnufrið. Engum dettur í hug að reisa álver nema hafa tryggan vinnufrið um smíði þess og rekstur. Nýja álverið getur gert kjarasamning undir einum hatti við launþegafélögin suður með sjó.

Áður en í ljós kom, að Karl Steinar og menn hans væru lífsreyndari en norðanmenn og austanmenn, var vitað, að í Reykjaneskjördæmi einu hefði álverið aðgang að starfskröftum án þess að þurfa sérstaklega að sprengja upp launamarkaðinn vegna fámennis í héraði.

Stóra málið er auðvitað ekki þetta, heldur orkuverðið. Hér í blaðinu hefur lengi verið varað við, að hugmyndir samningsaðila um verðið eru fremur lágar og fremur áhættusamar. Svo virðist sem viðræðurnar stefni að niðurstöðu, sem er Íslendingum óhagstæð.

Bæði hér og annars staðar hefur verið lögð áherzla á, að Íslendingar megi ekki taka mikla áhættu af álframleiðslu. Við ættum til dæmis ekki að vera hluthafar í slíku veri, heldur einbeita okkur að sölu rafmagns. Og orkuverðið má ekki verða of háð sveiflum á verði áls.

Þótt orkuverð fylgi álverði, verður að setja þeirri sveiflu einhver mörk, sem tryggi, að eigendur Landsvirkjunar lendi ekki í stórfelldum vandræðum við að greiða vexti og afborganir af lánum til orkuvera, ef álverð hrynur af einhverjum utanaðkomandi ástæðum.

Ef þar á ofan er ætlunin að veita álverinu verulegan afslátt af orkuverði, jafnvel fyrstu tíu árin, er enn nauðsynlegra en ella að setja reikningsdæmið þannig upp, að gert sé ráð fyrir lágu heimsmarkaðsverði á áli. Ef það dæmi gengur ekki upp, er bezt að gleyma álverinu.

Við erum að tala um að nota alla hagkvæmustu virkjunarkostina í þágu þessa álvers. Við getum ekki notað þá til annarra arðbærari nota, ef við sitjum uppi með samning við álver, sem fær orkuna á lágu sveifluverði. Hvar virkjum við þá fyrir vetnisver eða orkukapal

Fleyg eru þau ummæli Suðurnesjamanna, að álverið verði reist á Keilisnesi eða í Kanada. Við skulum ekki vera viss um, að fyrri kosturinn sé betri fyrir okkur.

Jónas Kristjánsson

DV