Ný sveifla byggðaröskunar er að ganga í garð um þessar mundir. Sveiflan beinist að þéttbýlinu við sjávarsíðuna, sem hingað til hefur megnað að halda hlut sínum gagnvart Reykjavíkursvæðinu. Þessi röskun byggist á breyttum markaðsaðstæðum í útflutningi sjávarafurða.
Í nokkra áratugi hafa fiskvinnslustöðvar og þá einkum frystihús verið hornsteinn þjóðarhags. Á þessum tíma fólst gildi stöðvanna í, að þær tóku viðkvæman ferskfisk og gerðu hann geymsluhæfan, svo að unnt var að flytja hann langan veg vestur um haf á ríkan markað.
Nú er farið að frysta fiskinn enn ferskari en áður. Það er gert um borð í frystitogurum, sem geta landað hvar sem er. Fjárfestingin í frystitækjum skipanna er ekki föst á sama hátt og tækin í húsunum. Það er hægt að sigla með skipin til Reykjavíkur. Strax í dag.
Um leið hafa samgöngur og samgöngutækni batnað svo, að unnt er að koma ferskfiski á auðugan markað, án þess að verðgildi hans rýrni að ráði á leiðinni. Þetta hefur farið saman við aukna kaupgetu Vestur-Evrópubúa, sem vilja fisk fremur ferskan en frystan.
Með ýmsum ráðum er reynt að hefta þessa þróun. Einna eindregnast kemur hún fram í opinberu kerfi aflamiðlunar, sem skammtar leyfi til útflutnings á ferskum fiski. Slík skömmtunarstofa útflutningsleyfa er sérkennilegt fyrirbæri, sem minnir á kreppuárin.
Betri árangur hefur náðst í sálræna varnarstríðinu. Fundin hafa verið upp nýyrði og þau gerð að klisjum í munni sljórra fréttamanna. Ferskur fiskur er til dæmis sagður “óunninn” alveg eins og að hann þurfi á einhverri vinnslu að halda til að verða nothæf vara.
Ímyndunin endist skammt, því að ferskur fiskur er orðinn dýrari en svokallaður “unninn” fiskur. Í Evrópu er þorskur kominn í 140 krónur á kílóið og karfi og ufsi eru komnir í 100 krónur. Þetta þýðir, að fyrirhöfn við frystingu er farin að rýra verðgildi “hráefnisins”.
Við þetta bætist, að fiskur, sem frystihús og söltunarhús fá, fer í vaxandi mæli um gólf innlendra fiskmarkaða, sem gefa sjómönnum og útgerð mun hærra verð en fiskverð opinberu nefndanna gefur. Þorskurinn er kominn í 100 krónur, ufsinn og karfinn í 50 krónur.
Fiskmarkaðirnir hafa einkum náð fótfestu á Reykjavíkursvæðinu. Þeir soga að sjálfsögðu til sín skipin, sem ekki fá skammtað leyfi til útflutnings á ferskum fiski. Þannig eru það mörg samverkandi atriði, sem grafa undan stöðu fiskvinnsluhúsa við sjávarsíðuna.
Auðvitað er mjög gott fyrir þjóðarbúið í heild, að ferskur fiskur skuli hafa hækkað svona mikið í verði og að ekki þurfi lengur að varðveita geymsluþol hans með dýrum aðferðum. En hliðaráhrifin af happafengnum verða ekki jafn ánægjuleg fyrir alla landsmenn.
Landsmálin hafa í nokkra áratugi að nokkru leyti mótast af ágreiningi um, hversu miklu megi verja af sameiginlegu aflafé til að reyna að koma í veg fyrir, að fólk flyttist úr sveitum landsins til sjávarsíðunnar. Þetta varnarstríð hefur verið dýrt og fremur árangursrýrt.
Skömmtun aflamiðlunar á leyfum til útflutnings á ferskum fiski er eitt fyrsta skrefið í nýju stríði við nýtt vandamál af þessu tagi, nýja röskun. Fleira verður reynt, til dæmis að koma í veg fyrir, að fólk við sjávarsíðuna noti húsnæðislánafé sitt á Reykjavíkursvæðinu.
Búast má við, að dýrt varnarstríð gegn röskun í þjóðfélaginu af völdum breyttrar stöðu ferskfisks verði jafn rýrt í eftirtekjum og fyrri varnarstríð af slíku tagi.
Jónas Kristjánsson
DV