Taj Mahal er gott veitingahús, en nokkuð dýrt. Það væri góður fulltrúi Indlands, jafnvel þótt það væri í London, þar sem er mest úrval góðra matstaða með indverskum mat. Það býður sannan Indlandsmat, sem vandað er til í eldhúsinu.
Yfirleitt eru austræn veitingahús fremur léleg í Reykjavík, slakari en hliðstæðar matstofur í stórborgum Vesturlanda. Taj Mahal er ein af fáum undantekningur frá þeirri reglu.
En þetta er dýr veitingastofa á íslenzkum mælikvarða og hvað þá á mælikvarða indverskra matsöluhúsa. Tilboð dagsins vantar fimm krónur í að kosta heilar 2.000 krónur, fyrir utan kaffi.
Til að bæta fyrir þetta háa verð býður Taj Mahal hádegismat á 650 krónur, sem fer í 850 krónur með brauði og kaffi. Fyrir þetta verð má velja milli nokkurra þekktra indverskra rétta, svo sem karrínauts, jógúrtfiskjar eða rækjurúllu.
Ég valdi fjóra karrírétti á einum diski fyrir 750 krónur. Hrísgrjónin voru kekkjuð, en að öðru leyti var þetta góður matur. Þarna var fremur bragðsterkt grænmetiskarrí, gott nautahakk og tveir kjúklingaréttir, báðir góðir. Sem ódýr hádegisréttur var þetta ágætlega frambærilegt, en engin opinberun.
Næfurþunnar
brauðflögur
Gott er að byrja kvöldveizlu í Taj Mahal á “poppdom”. Það er næfurþunnt og stökkt brauð, sem minnir í útliti á risastórar kartöfluflögur. Þetta brauð fæst með eða án hvítlauks og kostar 115 krónur. Báðar útgáfurnar eru góðar.
“Nan” er sjálfkjörið með öllum indverskum mat. Það er þykkt brauð úr hveiti eða heilhveiti, bakað í leirofni og borið fram heitt og mjúkt, þykkt og seigt, mjög bragðgott í Taj Mahal. Það kostar 175 krónur við venjulegar aðstæður og aðeins 50 krónur með hádegismatnum.
Meðal forréttanna var mjög góð baunasúpa, “dahl”, þykk og bragðsterk. Meðal þeirra var líka “bhaji”, steikt laukbolla, skemmtilegur og góður réttur. Bezti forrétturinn var “puri”, en það er djúpsteikt heilhveitibrauð, sem í Taj Mahal var fyllt með karrílegnum rækjum. Hrásalat fylgir aðalréttum staðarins, yfirleitt ferskt og gott, borið fram með góðri mintujógúrt.
Hrísgrjón eru hefðbundin undirstaða indverskrar máltíðar. Í Taj Mahal er boðið upp á venjulegt “pilau”, hrísgrjón, sem eru soðin í seyði, en ekki vatni; svo og “birjani”, en það eru hrísgrjón, sem eru þar að auki ilmuð og lituð með saffran og öðrum kryddtegunum, svo að þau verða þrílit; gul, rauð og hvít. Báðar útgáfurnar reyndust góðar. Hrísgrjónin eru verðlögð sérstaklega eins og brauðið og kosta 150 krónur skammturinn.
Meyrt kjöt
úr leirofni
Stolt staðarins er raunverulegur “tandoor”, en það er indverskur leirofn, sem bakar við 700 stiga hita eftir að hráefnið hefur legið í karríkryddaðri jógúrt yfir nótt. Réttirnir úr honum heita “tandoori” og eru í Taj Mahal bornir fram brakandi heitir á borð gesta.
Ég prófaði “tandoori”-lamb, alveg sérstaklega vel heppnað. Það var vel meyrt og safaríkt. Við annað tækifæri reyndist “tandoori”-kjúklingur ekki eins góður. Hann hafði verið látinn vera lengur í ofninum og var farinn að þorna, en lærið var þó enn í góðu lagi, enda þykkasti bitinn.
Það er galli við marga indverska matstaði, að menn passa ekki nógu vel eldunartímann í leirofninum. Í Taj Mahal er betur vandað til þessa en í mörgum þekktum Indlandsstofum í nálægum heimsborgum, en samt mætti gera enn betur.
Ég prófaði líka “korma”-nautakjöt. Það er algengur Indlandsréttur. Kjötið er steikt í jógúrt. Þetta var svo sem ekki merkilegt, en alveg frambærilegt. Ennfremur prófaði ég “pachanda”-nautakjöt, sem reyndist vera fremur góður réttur, borinn fram í kryddaðri jógúrtsósu, mjög góðri.
Loks prófaði ég rétt, sem sagður var mjög bragðsterkur á matseðlinum og var það í raun. Það var “vindaloo”, edikslegið kjöt í karrí, gott fyrir okkur, sem höfum stálmaga. Raunar er víða tekið fram í matseðli Taj Mahal, hvort réttir séu mildir, í meðallagi, sterkir eða mjög bragðsterkir.
Indverjar eru ekki mikið fyrir eftirrétti. Það, sem fer næst Indlandi í eftirréttum í Taj Mahal, er ísinn, sem er annars vegar með mangó-bragði og hins vegar með bragði af pistacchio-hnetum og negul. Þetta var skemmtilegur ís, einkum af því að hann var svo ólíkur því sem við eigum að venjast hér á landi.
Snarpheitir
gufudúkar
Verð flestra aðalrétta í Taj Mahal er um 1250 krónur. Við það þarf að bæta hrísgrjónum, poppadom- og nan-brauði, svo að verðið fer í rúmar 1.700 krónur, fyrir utan forrétt, eftirrétt og kaffi. Ef maður velur tilboð dagsins fær maður margrétta veizlu á tæpar 2.000 krónur, sem er bezta valið.
Þjónustan í Taj Mahal er mjög góð og yfirleitt kunnáttusamleg, jafnt í hádegi sem að kvöldi. Hápunktur umhyggjuseminnar er, að á kvöldin fá gestir snarpheita gufudúka til að þvo sér með eftir mat. Það er afar góður siður, sem því miður er sjaldgæfur utan japanskra veitingastaða.
Taj Mahal er um 60 sæta langur og mjór salur við miðjan Laugaveg. Hann er hreinlegur og snyrtilegur, fremur dimmur, ekkert óhóflega skreyttur á indverskan hátt. Mikill viður er í innréttingum og virðist mér fremur vandað til þeirra. Fólk situr í fjögurra manna básum sitt hvorum megin við miðganginn. Bekkirnir eru bólstraðir og þægilegir. Glerplötur eru á borðum og mottur ofan á glerinu. Þurrkur eru úr þunnum pappír, en heitu gufudúkarnir bæta úr skák á kvöldin.
Misheppnaður
sushi-bar
Innst í Taj Mahal hefur villzt japanskur “sushi”-bar, sem er opinn á kvöldin um helgar. Þar hefur verið settur upp glerskápabar, sem er þannig gerður, að gestir geti valið hráan fiskinn í skápunum og síðan horft á kokkinn rúlla saman hrísgrjónum, þangblöðum og fiskréttum í eins konar hanastélsbita, sem skolað er niður með volgu hrísgrjónavíni. Það er japönsk hreinlætisstefna, að gestir sjái bæði hráefnið og matreiðsluna.
Slíkir barir eru orðnir algengir í Ameríku og geta verið bráðskemmtilegt leikhús. Gestir borða þá hvern smáréttinn á fætur öðrum og geta rætt við kokkinn um val á hráefni í næsu umferð. Ég hef töluvert dálæti á nokkrum slíkum “sushi”-börum á Manhattan.
Í Taj Mahal við Laugaveginn eru glerskáparnir ekki notaðir til þessa, heldur hafðir auðir. Kokkurinn sýnir ekki hráefnið, setur það saman í laumi og ber alla pöntunina fyrir gestinn í einu lagi. Þetta er hvorki japanskt hreinlæti fyrir opnum tjöldum né bandarískt kokkaleikhús og missir því alveg marks, þótt allt sé í lagi með matinn. Ég held, að þarna eigi sér stað einhver misskilningur á eðli “sushi”-bara.
Ef fólk vill prófa þetta, þá kostar hver smáréttur 150 krónur og tíu slíkir mundu jafngilda heilli kvöldmáltíð. Ég prófaði ellefu rétti og voru þeir allir frambærilegir, nema smokkfiskurinn, sem var ólseigur.
Ég held, að ekki þýði að gera út “sushi”-bar, nema fara eftir formúlunni. Og ég efast um, að slíkur bar eigi mikið erindi í indverskan matstað, sem stendur fyllilega fyrir sínu sem fulltrúi Indlands og þarf ekki misheppnaða viðbót frá Japan og Bandaríkjunum.
Jónas Kristjánsson
DV