Sinn er siður

Greinar

Þegar við förum til fjarlægra landa með framandi siði, tökum við tillit til þarlendra umgengisvenja. Við notum til dæmis ekki áfengi á almannafæri í löndum íslams. Vesturlandabúar eiga líka að ætlast til hins sama, þegar íslamar setjast að á Vesturlöndum.

Því miður hafa sum vestræn þjóðfélög, til dæmis hið brezka, látið gott heita, þótt íslamskir íbúar hvetji til þess, að rithöfundurinn Salmon Rushdie sé drepinn. Hvatning til manndrápa er ólögleg á Vesturlöndum og ber að vísa þeim gestum úr landi, sem ekki virða það.

Vesturlönd hafa í stórum dráttum komið sér saman um siðareglur í mannlegum samskiptum. Samið hefur verið um, að efnavopn skuli ekki notuð í hernaði, að með stríðsfanga skuli fara með ákveðnum hætti og að óbreyttir borgarar séu ekki teknir í gíslingu.

Siðareglur Vesturlanda eru grunnmúraðar í stjórnarskrám og hefðum, sem segja, að allir megi kjósa, allir megi segja skoðanir sínar og virt skuli löng röð almennra mannréttinda, sem tryggja hag almennings og minnihlutahópa gegn lögreglu- og ofbeldisaðgerðum.

Með sáttum austurs og vesturs í Evrópu má reikna með, að smám saman gildi siðareglur Vesturlanda í samskiptum manna í milli, milli stjórnvalda og almennings og milli ríkja um því nær allt norðurhvel jarðar. Að þessu leyti marka árin 1989 og 1990 tímamót.

Í heimi íslams eru margir fylgjandi siðareglum af þessu tagi. Þeir telja, að vestrænn nútími sé engin uppfinning Satans, heldur áminning til þjóða íslams um, að þær hafi setið eftir í þróuninni í um það bil fimm aldir. Þannig hugsa til dæmis margir Tyrkir og Egyptar.

Ennfremur eru til íslamar, sem hafna vestrænum sjónarmiðum yfirleitt. Í þeim hópi hafa margir trú á Saddam Hussein sem lausnara, er feti í fótspor arftaka spámannsins, sem fóru blóðuga sigurför um Miðausturlönd og Norður-Afríku fyrir tæpum tólf öldum.

Saddam Hussein hefur frá vestrænu sjónarmiði brotið nærri allar siðareglur í samskiptum manna, þjóða og ríkja. Fram að innrásinni í Kúvæt komst hann upp með þetta. Hann hafði séð, að Vesturlönd gerðu ekkert, þótt hann beitti efnavopnum í Kúrdistan og Íran.

Hann hafði líka séð, að það borgaði sig að taka vestræna gísla, sem hægt var að selja vestrænum ríkisstjórnum. Áður voru gíslar teknir einn og einn, en nú hafa þeir verið teknir hundruðum og þúsundum saman. Nýja siðareglan segir, að það megi taka gísla.

Með því að taka vestræna gísla hefur Saddam Hussein flutt Persaflóastríðið til Vesturlanda. Hann hefur ekki aðeins ráðist á íslamskt nágrannaríki. Hann hefur líka ráðist á Vesturlönd almennt. Þannig hefur hann sagt Vesturlöndum stríð á hendur, þar á meðal Íslandi.

Ef Persaflóastríðinu lýkur með, að Saddam Hussein dregur her sinn frá Kúvæt og fær í staðinn eitthvað, sem gerir honum kleift að halda velli heima fyrir sem eins konar sigurvegari, hefur hann unnið gíslastríðið við Vesturlönd. Öll fúlmenni heims munu taka eftir því.

Persaflói er prófsteinn á nýfengna samstöðu norðursins. Staða Vesturlanda í umheiminum verður óbærileg, ef þau vinna ekki sigur í stríðinu við Saddam Hussein. Þau verða að brjóta hann á bak aftur, hrekja hann frá völdum og halda yfir honum stríðsglæparéttarhöld.

Að loknu slíku uppgjöri geta íslamar í alvöru farið að taka afstöðu til, hvort þeir vilji taka þátt í nútímanum eða frjósa inni í fimm alda gömlu hugarfari.

Jónas Kristjánsson

DV