12 milljónir á bónda á ári.

Greinar

Kvótakerfi og fóðurbætisskattur eru ekki beztu leiðirnar til samdráttar í framleiðslu mjólkurvöru og dilkakjöts. Þær koma of mikið niður á launum bænda án þess að hafa nógu mikil áhrif á framleiðslumagnið.

Bezt er að byrja á að stöðva stuðning við fjárfestingu í sauðfjár- og nautgripabúskap. Þar með er höggvið að rótum meinsins, áratuga offjárfestingu í landbúnaði. Samt heggur þessi leið ekki að launum bænda.

Fjárfesting í landbúnaði nemur nú 16 milljörðum króna eða nærri 4 milljónum króna á hvern bónda. Þessi fjárfesting er að verulegu leyti í sauðfjár- og nautgripabúskap. Og hún er að verulegu leyti á kostnað ríkis og opinberra sjóða.

Sparnað ríkis og sjóða af þessari aðgerð má nota til að hvetja bændur til að draga saman seglin eða bregða búi. Það má gera mikið fyrir upphæðir, sem nema árlega milljónum króna á hvern bónda í landinu.

Hluta upphæðarinnar má nota til að borga bændum fyrir að fækka búfé. Að baki þeirrar leiðar liggur hin ömurlega staðreynd, að þjóðfélagið sparar á að borga bændum fyrir að gera ekki neitt til að þurfa ekki að standa undir framleiðslunni.

Annan hluta má nota til að kaupa jarðir bænda og taka þær úr ábúð. Væru þær þá væntanlega ekki keyptar lægra verði en svo, að það dygði fyrir íbúð í þéttbýli. Einnig má styrkja bændur til náms í atvinnugreinum þéttbýlis.

Þriðja hlutann má nota til að styðja bændur til að skipta um búgreinar, taka upp greinar, sem eru samkeppnishæfar án styrkja, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna og innflutningsbanns. Þar eru fiskirækt og ylrækt ofarlega á baugi.

Þetta fyrsta skref mundi á nokkrum árum leiða til lækkunar og síðan hvarfs útflutningsuppbóta vegna minni framleiðslu á dilkakjöti, smjöri, ostum og mjólkurdufti. Sparnaðinn má nota til að flýta þróuninni.

Útflutningsuppbæturnar eru nú 8,5 milljarðar á ári eða um 2 milljónir króna á hvern bónda. Þetta fé má nota til að auka greiðslur til fækkunar bústofns, til kaupa á jörðum, til námsstyrkja bænda og til nýrra búgreina.

Eins má nota þessar fúlgur til að reisa á opinberan kostnað iðngarða í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa vinnslu landbúnaðarafurða. Húsnæðisskortur stendur iðnaði víðast fyrir þrifum. Iðngarðar eru lykill að smáiðnaði.

Iðngarðar um land allt mundu draga til sín starfskrafta úr landbúnaði og vinnslu landbúnaðarafurða. Þeir mundu milda þá röskun, sem fylgir samdrætti í framleiðslu og vinnslu dilkakjöts og mjólkurvöru.

Þegar framleiðslan er komin niður fyrir innanlandsneyzlu, er kominn tími til þriðja skrefsins, afnáms niðurgreiðsla og innflutningsbanns landbúnaðarafurða í áföngum. Það er stærsta og merkasta skrefið.

Innflutningur hræódýrra landbúnaðarafurða á heimsmarkaðsverði frá Efnahagsbandalaginu og Bandaríkjunum mun gera stjórnvöldum kleift að halda niðri vöruverði og vísitölu, þótt niðurgreiðslur minnki og hverfi.

Með afnámi niðurgreiðsla sparar ríkið til viðbótar 25 milljarða króna eða 6 milljónir á hvern bónda. Þá verður líka framleiðsla dilkakjöts og mjólkurvöru komin niður í þann helming eða þriðjung, sem raunverulegur markaður er fyrir hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV