Vestrænt Rússland

Greinar

Stefna markaðsbúskapar er hársbreidd frá sigri í Sovétríkjunum. Gorbatsjov forseti getur tæpast lengur hallað sér að Ryzhkov forsætisráðherra, sem hefur ár angurslaust leitað að millileið milli vestræns hagkerfis og þess hagkerfis, sem ríkt hefur í Sovétríkjunum.

Jeltsín Rússlandsforseti stjórnar ferðinni. Hann hefur safnað að sér sveit efnahagsráðgjafa, sem hefur gert svonefnda 500 daga áætlun um að koma á vestrænum markaðsbúskap á hálfu öðru ári. Forustumaður hópsins er Shatalín, sem einnig nýtur trausts Gorbatsjovs.

Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir, að á fyrstu 100 dögunum verði ráðuneytin gömlu lögð niður, sala ríkiseigna hefjist til hlutafélaga og að fjárveitingar til útlendra skjólstæðinga á borð við Kastró lækki um 76%, til hersins um 10% og til leyniþjónustunnar um 20%.

Síðan á byltingin að halda áfram stig af stigi, unz vestrænt markaðskerfi verði komið eftir hálft annað ár. Ef Sovétstjórnin fellst ekki á þetta, segist Jeltsín gera þetta í Rússlandi einu. Ráðamenn ýmissa annarra ríkja sovétsambandsins hyggjast feta í fótspor Jeltsíns.

Gorbatsjov situr á girðingunni. Annars vegar hefur hann lýst stuðningi við 500 daga áætlunina. Hins vegar hefur hann lýst stuðningi við Ryzhkov forsætisráð herra, sem hefur tekið við af Ligatsjev sem forustumaður þeirra, er vilja vernda völd flokksins.

Í rauninni er Gorbatsjov áhrifalítill um gang mála. Fólkið í landinu styður Jeltsín, þrátt fyrir ótta þess við óvissu hins frjálsa markaðar. Þótt þrjár kynslóðir þekki ekki annað en öryggi miðstýringar og samyrkju, virðist þorri manna styðja vestræna byltingarstefnu Jeltsíns.

Gorbatsjov er óvinsæll heima fyrir, en er í senn vinsæll á Vesturlöndum og eina haldreipi hers og leyniþjónustu Sovétríkjanna. Hann er nógu greindur til að sjá, að bylting hers og leyniþjónustu leysir engan vanda. Hann veit, að hér eftir verður erfitt að snúa til baka.

Það bezta, sem Gorbatsjov getur gert, er að reyna að ríða ölduna til vesturs. Hann getur notað stöðu sína til að reyna að koma í veg fyrir gagnbyltingu hers og leyniþjónustu og reynt um leið að afla sér vinsælda heima fyrir með því að halla sér að Jeltsín og hagfræðingunum.

Styrkur Jeltsíns felst annars vegar í persónuvinsældum hans og hins vegar í yfirþyrmandi stærð Rússlands í ríkjasambandinu. Eftir sigur Jeltsíns í Rússlandi er orðið næsta ólíklegt, að her og leyniþjónusta Sovétríkjanna leggi til atlögu gegn honum og fjölmennasta ríkinu.

Að vísu getur allt gerzt, þegar heimsveldi hrynur, svo sem nú er að gerast í Sovétríkjunum. Her og leynilögregla geta gripið til örþrifaráða, ef þessar valdastofnanir sjá sína sæng útbreidda. Það er orðið meginhlutverk Gorbatsjovs að koma í veg fyrir slíkt stórslys.

Ekki bætir úr skák, að skortur er á brauði í Sovétríkjunum, þótt lokið sé sæmilegri kornuppskeru. Í margvíslegum hörmungum fólks á liðnum áratugum hefur oftast verið hægt að fá brauð. Enginn getur útskýrt, hvers vegna brauð kemst nú ekki til skila í ríkisbúðirnar.

Einhverjum verður kennt um brauðskortinn. Ef það verða Jeltsín og hagfræðingarnir, getur komið bakslag í byltinguna. Ef það verða Ryzhkov og embættismennirnir, þora Gorbatsjov, her og leynilögregla ekki annað en að hallast á sveif með Jeltsín og hagfræðingunum.

Líklega getur fátt komið í veg fyrir, að Rússland, Eystrasaltsríkin og ýmis fleiri Sovétríki stökkvi með Austur-Evrópu inn í vestrænan nútíma á 500 dögum.

Jónas Kristjánsson

DV