Ekkert bendir til, að opinberir embættismenn hefðu getað, gætu nú eða mundu geta rekið Flugleiðir skár en núverandi stjórnendur fyrirtækisins. Það er ekki aðalsmerki embættismanna að vera fljótir að átta sig á nýjum aðstæðum.
Aukning hlutafjár ríkisins í Flugleiðum úr 6% í 20% mun vafalaust leiða til aukinna opinberra áhrifa á reksturinn, síður en svo til góðs. Það væri hættulegt skref í átt til þjóðnýtingar, banabita allrar rekstrarhagkvæmni.
Í stað hugmyndarinnar um aukningu hlutafjár ríkisins ætti ríkisstjórnin miklu frekar að krefjast skipta á stjórnendum Flugleiða. Hún ætti að stuðla að því að fá þar inn úr atvinnulífinu menn, sem starfsfólk og skattgreiðendur treysta.
Núverandi stjórnendur hafa að vísu ekki staðið sig eins illa og embættismenn mundu hafa gert. En þeir hafa þó staðið sig ákaflega illa síðustu árin. Þeir hafa stundað valdatafl í stað þess að sjá um rekstur fyrirtækisins.
Að minnsta kosti fimm ár eru síðan stjórnendur Flugleiða áttu að vera búnir að sjá, að samtök olíuframleiðsluríkja hefðu tögl og hagldir á olíumarkaðnum, – að eldsneyti mundi halda áfram að hækka ört á næstu árum.
Um svipað leyti hefði þeim átt að vera ljóst, að nauðsynleg tilfærsla eldsneytisverðs yfir í farmiðaverð mundi hafa áhrif á farþegafjöldann. Þá þegar var nauðsynlegt að byrja að haga seglum eftir vindi, fyrir tíð Carters og Lakers.
Ef stjórnendur Flugleiða hefðu þá þegar hafið samdrátt með því að hætta nýjum ráðningum og grenna bákn sitt í smáum stíl, væri nú ekki þörf á fjöldauppsögnum og hætta á þjóðnýtingu. Þá hefði aðlögunin tekið þægilega langan tíma.
Að minnsta kosti hálft þriðja ár er síðan stjórnendur Flugleiða áttu að vera búnir að sjá, að Carter Bandaríkjaforseti og Laker flugforstjóri voru menn, sem taka þurfti mark á. Sem fagmenn áttu þeir raunar að vita þetta mun fyrr.
Þegar Carter flautaði til verðstríðs í Bandaríkjunum og á Norður-Atlantshafinu áttu stjórnendur að sjá útbreidda sæng Loftleiðaævintýrsins. Þá þegar var ljóst, að nokkrir stórir mundu lifa af þennan slag upp á líf og dauða.
Hin hrikalega áhætta komst í opinbera umræðu hér á landi þegar árið 1978. Þá sögðu stjórnendur Flugleiða, að ástandið væri tímabundið og ekki alvarlegra en svo, að þeir réðu við það. Þetta var auðvitað tómt rugl.
Það var ekki fyrr en á miðju ári 1979, að farið var að fækka starfsliði og þá á þann einstaklega klaufalega hátt, sem æ síðan hefur einkennt Flugleiðir. Þar kom til skjalanna hinn svonefndi nýi stjórnunarstíll.
Svo var það ekki fyrr en á miðju þessu ári, að farið var að draga verulega úr framboði sæta á flugleiðum, sem lengi höfðu verið rekna með roknatapi, þótt hvert sæti væri skipað. Þetta heitir að fljóta sofandi að feigðarósi.
Á þessum tíma myndaðist tap, sem sennilega nemur rúmum tíu milljörðum króna. Þetta tap hefði ekki myndazt, ef stjórnendur Flugleiða hefðu hagað seglum eftir vindi síðustu fimm árin. Tapið er þeim að kenna, en ekki starfsfólki og enn síður gagnrýnendum úti í bæ.
Íslendingum er hlýtt til Flugleiða og vilja, að þær komist yfir hrunið. Það gerist bezt með mannaskiptum, svo framarlega sem embættismennska og þjóðnýting svífur ekki yfir vötnum.
Jónas Kristjánsson
DV