“Ekki fór ég”

Greinar

Þegar venjuleg fyrirtæki lenda í óvæntum ágangi viðskiptavina, hlaupa allir starfsmenn upp til handa og fóta. Bókarinn leggur frá sér kladdann og hleypur í afgreiðsluna. Allir reyna, þótt þeir hafi sérhæft sig í öðru, að hjálpast að við að láta viðskiptavininn ekki bíða.

Leiðarahöfundur minnist að hafa horft á þekktan skókaupmann hlaupa haltan um himnastiga á lagernum til að sjá um, að viðskiptavinir fengju sitt í grænum hvelli. Hjá ríkinu segir forstjórinn: “Ekki fór ég að flytja mig í þetta,” þegar viðskiptavini ber óvænt að garði.

Viðhorf forstjóra Húsnæðisstofnunar er dæmigert fyrir ríkið og stofnanir þess. Sjálfur var hann of fínn til að taka til hendinni í húsbréfadeild og taldi suma aðra starfsmenn líka of fína: “Það er nú erfitt að flytja arkitekt í þetta,” sagði hann til frekari útskýringar.

Álagið á Húsnæðisstofnun ríkisins vegna tilkomu húsbréfa var ekki leyst með því að færa fólk um tíma milli deilda. Samt hlýtur að hafa minnkað álagið á öðrum deildum stofnunarinnar, úr því að viðskiptavinir flytja sig af hefðbundinni lánaleið yfir í húsbréfin.

Álagið á Húsnæðisstofnun ríkisins var ekki leyst með því að semja við starfsfólk um, að það frestaði sumarfríum fram yfir versta álagstímann. Sumarfrí ganga fyrir öðru hjá stofnunum hins opinbera, því að innra markmið stofnana er annað en þjónusta við almenning.

Ríkisstofnanir eru í rauninni settar á stofn til að gefa helztu gæludýrum stjórnmálaflokkanna kost á fínum stöðum forstjóra og deildarstjóra. Þær eru settar á stofn til að veita lægra settum, en þóknanlegum letingjum aðstöðu til að fá mánaðarleg laun, sumarfrí og þægindi.

Á margan hátt var unnt að mæta hinu skyndilega álagi vegna húsbréfanna. Í síðari hluta maí varð ljóst, að álagið yrði mjög mikið. Þá var unnt að grípa til samninga við bankana um, að þeir tækju strax að sér að afgreiða umsóknir um húsbréf, svo sem ráð er fyrir gert.

Ráðamenn í einkafyrirtæki hefðu fórnað nokkrum kvöldum og helgum í vor til að ná skyndilegum samningum við annað fyrirtæki um að taka að sér álagið. En hjá ríkinu gerast hlutirnir ógnarlega hægt, af því að fínu mennirnir nenna tæpast að taka til hendinni.

Húsbréfavandinn var svo magnaður með óþarflega bjartsýnum fullyrðingum húsbréfadeildar um, hversu mikinn tíma mundi taka að afgreiða mál. Fólk tók mark á þessum yfirlýsingum og lenti svo í vandræðum, þegar deildin var langt frá því að standa við gefin loforð.

Húsnæðisstofnunin er ekkert verri en aðrar stofnanir. Hún hefur bara lent í endurteknum kollsteypum á húsnæðislánakerfinu og hefur því vakið meiri athygli en margar aðrar. Áður fyrr var Bifreiðaeftirlitið fræg vandræðastofnun og Tollstjóraskrifstofan er það enn.

Húsnæðisstofnun er heldur ekki einni um að kenna, þótt hún hafi þjónað illa viðskiptavinum húsbréfadeildar. Ráðherra og ráðuneyti eiga að vita, að undirbúa þarf framkvæmd málsins, þegar lagt er í hverja kollsteypuna á fætur annarri í húsnæðiskerfi ríkisins.

Húsnæðisstofnun hefur að undanförnu tekið við 800 símtölum af um 6000 hringingum um húsbréf á dag eða 13% hringinganna. Augljóst er, að þetta hefur valdið húsbréfafólki óskaplegum kostnaði og tímasóun, auk hins hreina fjárhags, tafa- og húsnæðisvanda þess.

Athyglisvert og lærdómsríkt er, að málsaðilar í Húsnæðisstofnun virðast gera sér litla grein fyrir, hvað sé athugavert við meðferð stofnunarinnar á málinu.

Jónas Kristjánsson

DV