Kínahúsið

Veitingar

Loksins fann ég austrænt veitingahús, sem mig langar til að heimsækja aftur. Ég fann það á óvæntum stað, þar sem hvert veitingahúsið á fætur öðru hefur gefizt upp á undanförnum áður.

Staðurinn ætti samt að vera góður, á horni Skólabrúar, andspænis Menntaskólanum í Reykjavík. Þarna er Kínahúsið, látlaust veitingahús góðrar matreiðslu, aðallega af Canton-ætt.

Íslandsmet fyrir
fulla þjónustu

Stóra málið er ódýri hádegisverðurinn í Kínahúsinu. Þar er hægt að fá góða súpu og aðalrétt á annað hvort 495 krónur eða 595 krónur. Með kaffi á eftir fer maturinn í 605 krónur og 705 krónur, sem, að því er ég bezt veit, er Íslandsmet í veitingahúsi, er veitir fulla þjónustu.

Hér er loksins kominn staður, sem sýnir hið rétta eðli austrænna veitingahúsa ‹ að gera fólki fjárhagslega kleift að borða úti.

Súpan í hádegisverðinum reyndist í annað skiptið vera heit og góð grænmetissúpa, full af ýmsu góðgæti. Í hitt skiptið var hún heit og sérstaklega góð núðlusúpa með kjúklingabitum. Þetta voru sannkallaðar fyrirmyndarsúpur.

Þunn húð á
léttsteiktu

Fyrir 495 krónur var boðið upp á djúpsteiktar rækjur súrsætar, með hrísgrjónum. Þetta voru hæfilega lítið steiktar rækjur með hæfilega þunnri steikarhúð, engu steikarolíubragði og góðu sætubragði af súrsætu sósunni.

Yfirleitt er djúpsteiktur matur ofsteiktur og ofhúðaður í austrænum veitingastofum. Í Kínahúsinu var allur matur varlega, snögglega og nærfærnislega eldaður.

Rækjubragðið var svo sem ekki neitt, enda er það ekki í stíl slíkra veitingahúsa frá Suður- og Austur-Asíu að gefa eðlisbragði hráefnisins möguleika. Öll áherzla er á kryddinu.

Það eru raunar bara frönsku og japönsku matreiðsluhefðirnar, sem leggja áherzlu á eðlisbragð og lyfta þeim yfir aðrar hefðir af þessu tagi.

Höfundur
fer aftur

Fyrir 100 krónur í viðbót urðu aðalréttirnir þrír. Þá bættust við kjúklingabitar í afar mildri karrísósu og lambakjötsflögur í svokallaðri ostrusósu, sem er algengt fyrirbæri í kantonskum matstöðum.

Þetta var allt saman vel gert, greinilega eldað sérstaklega fyrir sérhvern gest. Ég hef tvisvar farið í slíka veizlu og ætla örugglega að fara aftur.

Á kvöldin eru í boði fjórir veizluseðlar, sem fela í sér kjúklingasúpu, vorrúllur, djúpsteikta banana og aðalrétt, sem stjórnar verði veizlunnar. Ef það er svínakjöt eða kjúklingur, kostar maturinn 1550 krónur; 1650 krónur, ef það er nautakjöt; og 2195 krónur, ef það er Peking-önd.

Í svínakjöti má velja milli “chop suey” matreiðslu og sætsúrrar. Í kjúklingum má velja milli “chop suey” og útgáfu með bambusspírum og sveppum. Í nauti má velja milli karrís og áðurnefndra bambusspíra og sveppa. Með Pekingöndinni fylgdi svokölluð Pekingsúpa og súrsætur hörpufiskur.

Áherzla á
sjávarrétti

Fyrir utan þetta er langur matseðill að kínverskum hætti. Athyglisvert er, að þar er mest áherslan lögð á sjávarrétti. Það er alltaf góðs viti, því að það bendir til, að reisn sé yfir eldhúsinu.

Sjávarréttirnir eru 24 á seðlinum, rúmlega helmingi fleiri en kjúklingaréttirnir. Ég prófaði góðan og meyran hörpufisk með “hoi sin” sósu og furðanlega meyran og góðan smokkfisk með karrí.

Kjúklingur með cashew-hnetum var afar mjúkur og góður. Svokölluð lúxus-vorrúla með nautahakki, rækjum, kjúklingi og bambusspírum var einnig mjög góð. Beztar voru svo súpurnar, hver með sínum hætti; heit, sterk og skemmtileg karríandasúpa; mild kjúklingasúpa með sveppum; og aldeilis ágæt sjávarréttasúpa.

Það er greinilega góður kokkur í eldhúsi Kínahússins.

Miðjuverð á súpum var 350 krónur, 453 krónur á vorrúllum, 775 krónur á fiskréttum, 990 krónur á kjötréttum, 1450 krónur á andaréttum, 650 krónur á hrísgrjóna-, pasta- og grænmetisréttum. Barnaréttir með ís kostuðu 410 krónur.

Með beztu
vínlistum

Mér kom skemmtilega á óvart, hversu góður vínlistinn er í Kínahúsinu. Slíkir seðlar eru venjulega ekki sterka hliðin á slíkum stöðum. En hér er hann snöggtum betri en gengur og gerist í reykvískum veitingastofum, sérstaklega í ódýrum vínum.

Í boði voru Gewurztraminer, Riesling Hugel og Chateau du Cléray í hvítvínum; Chateau Fontareche og Marqués de Riscal í rauðvínum; Tio Pepe í þurru sherry; og Quinta do Noval í árgangs-púrtvíni. Það bjóða ekki betur fínu montrassastaðirnir.

Um 45 sæti eru í opnum sal og er rúmt milli borða. Staðurinn er með kínverskum skreytingum, aðallega lugtum í lofti og á gluggapróstum, stórum og svörtum skermum framan við eldhús og salerni og næfursmíði í litlum glerskaápum í gluggum.

Stálhúsgögnin eru þægileg og líta vel út. Á borðum eru rauðir dúkar ofan á hvítum dúkum, svo og gerviblóm og kerti. Þurrkurnar eru úr taui á kvöldin og pappír í hádeginu. Í heild er staðurinn snyrtilegur og ekki ofhlaðinn.

Ég er búinn að setja Kínahúsið í hóp um það bil fimm uppáhalds-veitingahúsa minna á Reykjavíkursvæðinu.

Jónas Kristjánsson

DV