Hlaupið inn í spilavítið

Greinar

Núverandi álráðherra var drjúgur með sig, er hann seldi Útvegsbankann fyrir þremur árum. Hann lét ríkið leggja fram sem svarar 685 milljónum króna til að koma eignastöðu bankans upp í núll og taka á sig sem svarar 942 milljónum krónum vegna lífeyrisréttar starfsmanna.

Við undirritun kaupsamnings lagði núverandi álráðherra fram sem svarar 1309 milljónum til að liðka fyrir sölu bankans í hendur hlutafélags. Enn varð ríkið að borga sem svarar 346 milljónum vegna nokkurra gjaldþrota viðskiptavina, sem voru á herðum gamla bankans.

Áfram neyddist álráðherrann til að láta skattgreiðendur taka á sig sem svarar 288 milljónum króna vegna lífeyris bankastjóra. Á móti á ríkið von í 150 milljónum úr gömlum gjaldþrotum og hefur svo fengið bókað sem svarar 1105 milljónum í endanlegt söluverð bankans.

Allar upphæðirnar eru reiknaðar á núverandi verðlagi. Niðurstaða samlagningar og frádráttar sýnir, að ríkið hefur tapað rúmlega þremur milljörðum króna á sölu bankans, þótt ráðherrann teldi sér og sumum öðrum á sínum tíma trú um, að hann væri í góðu braski.

Þetta sýnir, hve erfitt er að stunda spákaupmennsku. Íslendingar hafa oft farið flatt á því, ekki sízt þegar ríkið hefur forgöngu í spádómum. Skemmst er að minnast opinberra spádóma um gott framtíðarverð á eldislaxi og refaskinnum, svo og um virkjunarkostnað Blöndu.

Gömul og gild reynsla er fyrir, að spádómar rætast ekki. Það gildir líka um spádóma á vegum Landsvirkjunar og ríkisstjórnar. Enginn heilvita maður mundi veðja matarpeningum fjölskyldunnar á grundvelli bjartsýnna spádóma frá Landsvirkjun eða ríkisstjórn.

Stóri glannaskapurinn í samningsdrögunum um nýtt álver er að hengja orkugreiðslur þess algerlega á heimsmarkaðsverð á áli. Það getur að vísu gefið rosalegan happdrættisvinning, en getur líka valdið miklu tapi. Og útreikningar sýna, að nánast engu má skeika í spánni.

Í leiðara DV fyrir réttri viku voru rakin ýmis rök með og móti spádómum um hátt heimsmarkaðsverð á áli. Til viðbótar við þá miklu óvissu koma svo efasemdir um, að virkjunarkostnaður verði nákvæmlega sá, sem Landsvirkjun gerir ráð fyrir í sínum bjartsýnu spám.

Til dæmis er vafasamt að sleppa Blöndu úr dæminu á þeirri forsendu, að virkjunin þar sé rugl. Er það ekki Landsvirkjun, sem er sjálf að reisa orkuverið? Er ekki einmitt verið að virkja Blöndu á grundvelli spádóma Landsvirkjunar um virkjunarkostnað og orkumarkað?

Ekki þarf heldur að gera mikinn ágreining um afskriftatíma og útreikninga á afslætti frá orkuverði til að fá út úr dæminu, að orkuverð til nýs álvers verði rúmlega einu mills lægra en fyrirhugað er, jafnvel þótt allar aðrar forsendur Landsvirkjunar séu notaðar.

Einnig er spurning, hvers vegna nýting nýs álvers sé áætluð 98%, mun hærri en hjá Ísal. Einnig má ímynda sér, að nýtingin fari að nokkru eftir sveiflum á heimsmarkaðsverði áls til að ná niður meðalorkuverði. Og hvað um lántökukostnað og endurlánakostnað?

Að öllu samanlögðu er unnt að búa til heldur minna bjartsýna spá, sem gerir ráð fyrir, að þjóðfélagið þurfi um 20 mills fyrir orkuna, ef fjárfestingardæmið eigi að ganga upp, en muni í reynd ekki fá nema 15 mills, ef heimsmarkaðsverð á áli verður örlítið lægra en nú er.

Þvílíkt fjárhættuspil hefur Íslendingum aldrei verið sýnt. Spilafíkn okkar er þó slík, að margir munu vilja fara á hlaupum inn í spilavítið án frekari umhugsunar.

Jónas Kristjánsson

DV