Vaðmálshyggju afneitað

Greinar

Miðstjórn Alþýðubandalagsins ákvað um helgina að hverfa frá vaðmálssósíalisma undanfarinna áratuga og leita aftur til hagfræðihyggju, en að þessu sinni til vestrænnar hagfræðihyggju án leiðsagnar frá Karli Marx. Flokkurinn hyggst bera nýja ímynd í næstu kosningum.

Forveri Alþýðubandalagsins var hagfræðilega sinnaður flokkur, svo sem vel kom fram í þátttöku Sósíalistaflokksins í nýsköpunarstjórn fyrir rúmlega fjórum áratugum. Þá gátu hagfræðisinnar til hægri og vinstri haft með sér samstarf um fráhvarf frá vaðmálssósíalisma.

Við stofnun Alþýðubandalagsins runnu inn í Sósíalistaflokkinn ýmis þjóðernisleg og dreifbýlisleg sjónarmið, sem hafa einkennt flokkinn fram að þessu. Vaðmálsstefna Þjóðvarnarflokksins gamla hefur allar götur síðan verið mjög áberandi í Alþýðubandalaginu.

Nú hefur blaðinu verið snúið við. Krafan um brottför hersins er orðin að varfærnislegu orðalagi um nýja öryggisstefnu friðar og alþjóðlegs samráðs. Andstaðan við útlent auðvald hefur breytzt í kröfur um viðskiptafrelsi, Evrópuviðræður og jafnvel stuðning við nýja álverið.

Landbúnaðarráðherra er helzti fulltrúi vaðmálssósíalista í forustusveit flokksins. Hann segir miðstjórnarfundinn ekki hafa tekið afstöðu til staðarvals álvers á Suðurnesjum. En með því að taka ekki afstöðu til staðarvals, tók flokkurinn afstöðu með orðinni staðreynd.

Áður hafði Alþýðubandalagið flúið frá Karli Marx inn í draumaheim þann, sem Gísli Gunnarsson sagnfræðingur gaf heitið vaðmálssósíalisma. Þar keppti Alþýðubandalagið við Framsóknarflokkinn í yfirboðum um verndun gamalla atvinnuhátta og gamallar búsetu.

Þegar vestræn markaðshyggja tók hagfræðivöld í Austur-Evrópu í fyrravetur, taldi formaður Alþýðubandalagsins, að tímabært væri orðið að hætta flótta frá hagfræðinni og taka einfaldlega upp vestræna hagfræði. Stefna hans hafði sigur á miðstjórnarfundinum.

Með afnámi hinnar gömlu stefnuskrár frá 1974 er Alþýðubandalagið fyrst og fremst að breyta ímynd sinni. Ólafur Ragnar Grímsson vill heyja kosningabaráttu komandi vetrar undir nútímalegum merkjum og gera flokkinn samstarfshæfan við Sjálfstæðisflokkinn.

Þar með hefur innihald Alþýðubandalagsins ekki breytzt á einni nóttu. Þar er enn fullt af þjóðvarnarmönnum og vaðmálssinnum. En þeir hafa hægar um sig. Og áherzlan hefur óneitanlega flutzt frá þeim yfir til hagfræðisinnaðra stuðningsmanna formannsins.

Um þessar mundir er verið að grafa undan Hjörleifi Guttormssyni í flokknum á Austfjörðum og undirbúa skipti á þingmannsefni flokksins í því kjördæmi. Ef það tekst, hafa nýju mennirnir í flokknum losnað af þingi við hávaðasamasta fulltrúa vaðmálshyggjunnar.

Þótt stefnuskrár séu í sjálfu sér ekki mikils virði, er óhjákvæmilegt, að róttæk stefnubreyting Alþýðubandalagsins mun smám saman færa flokkinn nær miðju íslenzkra stjórnmála. En það gerist ekki í þvílíku vetfangi, sem felst í afnámi gamallar stefnuskrár.

Fyrst og fremst er Alþýðubandalagið að verða tækifærissinnaðri flokkur í líkingu við Alþýðuflokkinn. Það er í vaxandi mæli að fiska á miðum hinnar pólitísku miðju og gera forustumönnum sínum kleift að gera tækifærissinnuð stjórnarbandalög til allra átta.

Samt er ein afleiðingin sú, að þjóðmálaumræðan í landinu mun mjakast frá tilfinningasemi vaðmálshyggjunnar og færast nær því, sem gildir á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson.

DV