Miðflóttaafl tungumála

Greinar

Þegar leigubílar í Barcelona eru lausir, stendur ekki lengur “libre” á skiltinu í glugganum, heldur “lliure” upp á katalúnsku. Verið er að breyta götuskiltum úr því, sem við köllum spönsku yfir á katalúnska tungu. Sama er að segja um matseðla veitingahúsa.

Þegar ferðamaður í Barcelona reynir að gera sig skiljanlegan á eins konar spönsku, er hann vorkunnsamlega spurður, hvort hann tali kastilísku, en svo er spánska kölluð í Katalúníu. Samtalið færist venjulega yfir í ensku, sem margir Katalúnar taka fram yfir kastilísku.

Hið sama er að gerast í Valensíu, þar sem töluð er katalúnsk mállýska. Báðar þessar tungur eru á milli frönsku og hefðbundinnar spönsku, sem töluð er á hásléttum Kastilíu. Í humátt á eftir fylgja svo Galisíumenn, sem tala enn aðra tungu, er minnir á Portúgal.

Baskar á norðurströnd Spánar eru harðastir allra í að afneita kastilísku. Jafnvel í ferðamannabæ á borð við San Sebastian er búið að taka niður kastilísku götuskiltin og setja upp ný á baskamáli. Þannig hafa sértungumálin blómstrað í nýfengnu lýðræði á Spáni.

Á Bretlandseyjum hefur í nokkur ár verið sjónvarpað á velsku, sem er keltneskt mál í Wales. Nú er komin hreyfing á annað keltneskt mál, kornísku, sem töluð er lítils háttar á skaganum fyrir sunnan, í Cornwall. Bókmenntatímarit á kornísku kemur nú út tvisvar á ári.

Upplausnin í Sovétríkjunum hefur leitt til nýrrar áherzlu á tungumál minnihlutahópa, sem haldið var niðri, meðan miðstjórnaraginn var þrúgandi. Trúarbrögð og tungumál eru fremst á oddi þeirra, sem reyna að efla sjálfstæði gagnvart valdamiðjunni í Kreml.

Sjálft móðurlandið, Rússland, er að liðast í sundur, því að einstök héruð hafa lýst yfir fullveldi eða eru að undirbúa það. Tartaraland, sem er suðaustur af Moskvu, hefur lýst yfir fullveldi gagnvart Rússlandi, sem hefur lýst yfir fullveldi gagnvart Sovétríkjunum.

Málin verða enn flóknari, þegar Baskírar, sem eru í suðurhluta Tartaralands, lýsa yfir fullveldi gagnvart Törturum, sem lýsa yfir fullveldi gagnvart Rússum, sem lýsa yfir fullveldi gagnvart Sovétríkjunum. Þannig eru víða minnihlutahópar innan í minnihlutahópum.

Samkvæmt einni mælingaraðferð eru töluð tæplega 200 tungumál í Sovétríkjunum. Það eru því ekki aðeins fimmtán lýðveldi í Sovétríkjunum, sem óska eftir sjálfstæði, heldur ótal sjálfsstjórnarsvæði innan lýðveldanna og jafnvel svæði innan sjálfsstjórnarsvæðanna.

Gorbatsjov forseti er að reyna að halda Sovétríkjunum saman með því að taka tillit til óska tungumálasvæðanna um sjálfsstjórn, þó þannig að utanríkismál og hermál, samgöngur og myntslátta, orka og hráefni, svo og skattheimta verði áfram í höndum Kremlverja.

Ólíklegt er, að honum takist þetta, því að miðflóttaafl tungumálasvæðanna mun hrifsa til sín meira af því valdi, sem verður til skiptanna, og sum svæði munu hreinlega yfirgefa ríkjasambandið að fullu. Miðstjórnin í Kreml hefur ekki lengur aga eða tök á þróun mála.

Í vörninni fyrir hönd ríkisheildarinnar munu Kremlverjar reyna eins og Kastilíumenn á Spáni eru að reyna að gera, að læra af Svisslendingum, sem hefur tekizt að halda uppi einingu í landi sínu með því að dreifa töluverðum hluta miðstjórnarvaldsins til kantónanna.

Tími fjölþjóðavelda er liðinn. Með vaxandi lýðræði munu tungumál og trúarbrögð ráða, hvernig fólk raðast saman í ríki og í aðrar einingar fullveldis.

Jónas Kristjánsson

DV