Algildar leikreglur

Greinar

Efnislegir fjársjóðir Vesturlanda verða ekki skildir frá hinum mannúðlega og veraldlega hugarheimi að baki. Stjórnvöld í Austur-Evrópu og í Sovétríkjunum eru að átta sig á, að ríkidæmi næst ekki nema teknar verði upp vestrænar leikreglur á borð við mannréttindi.

Trúhneigðir og íhaldssamir olíufurstar á Arabíuskaga hafa hingað til haldið, að þeir gætu reist tæknivætt peningaþjóðfélag án þess að taka upp leikreglur mannréttinda og lýðréttinda, sem urðu til á Vesturlöndum og eru hornsteinn stofnskrár Sameinuðu þjóðanna.

Aðrir veraldlegir furstar á þessum slóðum, svo sem Saddam Hussein Íraksforseti, eru hvorki trúhneigðir né íhaldssamir. En þeir sækja sér afl í útbreitt hatur fólks á hinum vestræna hugarheimi, sem hefur ruðzt með sjálfvirkri frekju inn í rótgróin hugarheim þess.

Heimur íslams er þríklofinn. Þar eru í einum hópi hryðjuverkamenn og siðleysingjar á borð við Saddam Hussein. Í öðrum eru trúhneigðir afturhaldsmenn á borð við olíufurstana. Í þriðja hópnum eru þeir, sem vilja sameinast Vesturlöndum í hugarheimi nútímans.

Fyrir þúsund árum var heimur íslams fremri heimi kristninnar. Þá sköruðu íslamskir verkfræðingar og vísindamenn og viðskiptahöldar fram úr kristnum starfsbræðrum sínum. En síðan stukku Vesturlönd fram úr með því að koma sér upp veraldlegu þjóðfélagi.

Ekkert bannar í sjálfu sér, að slík breyting geti líka orðið í löndum íslams. Leikreglurnar í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna eru ekki í eðli sínu aðeins vestrænar, heldur eru þær alheimslegt skref á þróunarbraut mannkyns. Mann- og lýðréttindi henta öllum þjóðum heims.

Með hernaðarbandalagi Vesturlanda við Egyptaland og Tyrkland gegn Írak er stutt við bakið á öflum í þessum löndum, sem vilja feta slóðina í átt til hinna algildu leikreglna. Tyrkland er komið langleiðina í átt til lýðræðis og Egyptaland rambar á rúmlega miðri leið.

Einnig má búast við, að hinir trúhneigðu afturhaldsmenn, sem ráða ríkjum á Arabíuskaga, sjái, að betra sé að leyfa kosningarétti, málfrelsi og öðrum grundvallaratriðum úr stofnskrá Sameinuðu þjóðanna að síast inn fremur en að fórna samstarfinu við Vesturlönd.

Brýnt er, bæði fyrir Vesturlönd og fyrir hugsjónir Sameinuðu þjóðanna, að spennan milli austurs og vesturs verði ekki leyst af hólmi af spennu milli vesturs og íslams. Mikilvægt er, að nútímaöfl í ríkjum íslams verði studd gegn myrkum öflum afturhalds, reiði og haturs.

Þess vegna ber Vesturlöndum að beita sér af fullri alvöru í Persaflóastríðinu.Í fyrsta lagi verða Bandamenn að vinna sigur í því stríði. Í öðru lagi þarf að tefla framhaldið á þann hátt, að hinir raunverulegu sigurvegarar verði ríki á borð við Egyptaland og Tyrkland og að lýðræði eflist í afturhaldsríkjunum á Arabíuskaga.

Ef Saddam Hussein og aðferðir hans halda velli, mun hugarheimur nútíma siðmenningar eiga erfitt uppdráttar í löndum íslams á næstu árum og jafnvel áratugum. Þá mun magnast spenna vesturs og íslams og verða enn hættulegri en kalda stríðið var á sínum tíma.

Það er ekkert einkamál fyrir Vesturlandabúa að vilja lifa í siðmenningarheimi, þar sem sérhver hefur atkvæði og frelsi til að skrifa, taka til máls og taka þátt í hvers kyns félagsskap, pólitískum sem öðrum: svo og frelsi frá ofbeldi af hálfu ríkisins og stofnana þess.

Eftir að Austur-Evrópa hefur áttað sig á, að siðmenning þarf ekki að vera einkaeign Vesturlanda, er röðin komin að heimi íslams að átta sig á slíku hinu sama.

Jónas Kristjánsson

DV