Fisk fyrir búvöru

Greinar

Evrópubandalagið hefur löngum verið okkur erfitt og á eftir að verða okkur erfitt. Ríki, sem áður tolluðu ekki saltfisk frá okkur, Portúgal og Spánn, eru nú látin tolla saltfiskinn að skipun bandalagsins. Og næst vill bandalagið komast inn í fiskveiðilögsögu okkar.

Samt hefur Evrópubandalagið mikið aðdráttarafl. Þýzkaland og Bretland, sem bæði eru í bandalaginu, hafa leyst Bandaríkin af hólmi sem helztu kaupendur útflutningsafurða okkar. Við erum alltaf að verða háðari útflutningi til landa Evrópubandalagsins.

Evrópskar myntir hafa verið að styrkjast í samanburði við bandaríska dollarann. Þess vegna hafa útflytjendur séð sér hag í að færa viðskipti frá Bandaríkjunum til Evrópubandalagsins. Viðskiptin hafa líka færst í hendur þeirra, sem eru sérhæfðir í Evrópumarkaði.

Auk þess er evrópski markaðurinn á hærra stigi en hinn bandaríski. Neytendur í Evrópu taka dýran ísfisk fram yfir frysta fangafæðu, svo að við fáum meira fyrir fiskinn, þótt við spörum okkur alveg að fara með hann í dýrt ferðalag um vinnslulínur frystihúsanna.

Æskilegt hefði verið að geta byggt upp Japansmarkað til hliðar við Evrópumarkaðinn, svo að við hefðum þrenns konar ólíkan markað fyrir útflutningsafurðir okkar. Þá værum við ekki eins háð hverjum einstökum markaði fyrir sig, ekki eins háð Evrópubandalaginu.

En Japan er langt í burtu og kostar flug. Við höfum verið svo vitlaus að afhenda Flugleiðum einokun á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli, svo að Flying Tigers, sem reyndu að fljúga með hágæðavörur okkur til Japans, hröktust að mestu í burtu undan óheyrilegum gjöldum.

Staðan er því sú, að í útflutningi okkar er bandaríska sólin að hníga til viðar og japanska sólin er ekki enn risin, en hin evrópska er hæst á lofti. Þess vegna er okkur mjög brýnt að leita allra leiða til að opna hvimleiða tollaog haftamúra Evrópubandalagsins.

Við getum ekki boðið veiðiheimildir í staðinn. Ef verzlunarfrelsi væri í veiðiheimildum, mundi hið sama gerast og þegar trillukarlar fengu kvótann í sumar. Þeir seldu frumburðarrétt sinn í hendur togaraútgerðar. Hið sama munum við gera, þegar útlendingar koma.

Samkvæmt hagfræðilögmálum væri það mjög hagkvæm lausn. Gallinn er bara, að sú hagkvæmni er í þágu annarra en þeirra, sem hafa dafnað í skjóli einokunar á íslenzkum fiskimiðum, það er að segja okkar sjálfra. Hagfræðilögmálin gilda ekki fyrir okkur.

Sjálfstætt þjóðfélag á Íslandi, með eigin tungumáli, stendur og fellur með einokuninni, sem við höfum komið okkur upp á 200 mílna fiskveiðilögsögu. Daginn, sem við seljum þann frumburðarrétt, erum við komin sem sérstök þjóð á leið út úr veraldarsögunni.

Við gætum hins vegar boðið Evrópubandalaginu tollfrjálst innflutningsfrelsi á óseljanlegri búvöru bandalagsins í skiptum fyrir afnám tolla og hafta á fiskinum frá okkur. Neytendur á Íslandi mundu græða á slíku samkomulagi, svo að gróði okkar yrði tvöfaldur.

Því miður er enginn meirihluti meðal þjóðarinnar fyrir því að breyta erfiðu vandamáli í stórgróða og þar af leiðandi enginn skilningur meðal ráðamanna á hinum stórkostlega möguleika, sem við hefðum í viðræðum um býtti á sjávarvörufrelsi og búvörufrelsi.

Meðan við neitum okkur um að hugsa svona skynsamlega erum við dæmd til að sogast nauðug viljug inn í Evrópubandalag, sem er okkur alls ekki að skapi.

Jónas Kristjánsson

DV