Við göngum 100 metrana til baka að brúnni, förum yfir hana og fáum okkur kollu í elztu krá borgarinnar, Brazen Head, sem er hér við árbakkann. Síðan förum við 100 metra upp brekkuna Bridge Street.
Hér til hægri er Cook Street með heillegum hluta gamla borgarmúrsins. Yfir múrnum gnæfa kirkjurnar St Audoen’s, önnur kaþólsk og hin anglíkönsk. Nálægt kirkjunum er hlið frá 1275 á múrnum.
Við förum 100 metra meðfram múrnum, inn um hliðið og upp tröppur að kirkjunum.
Hin minni St Audoen’s er ein af elztu kirkjum borgarinnar, reist á 12. öld í gotneskum stíl af Normönnum frá Rouen í Frakklandi. Vesturportið og turninn eru frá þeim tíma, en sjálft kirkjuskipið er frá 13. öld og gluggar þess frá 15. öld.