Klippa hálsbindi

Greinar

Skortur menntaskólanema á mælskulist hefur verið tilefni blaðadeilu undanfarnar vikur. Svo virðist sem lið hafi unnið mælskukeppni á klósettbröndurum og með því að klippa hálsbindi af fundarstjóra, en annað lið hafi tapað með því að láta hið síðarnefnda hjá líða.

Keppni af þessu tagi virðist felast í, að keppendur draga um, hvort þeir mæli með eða móti umræðuefni, sem þeim er sett fyrir. Þetta getur verið ágæt þjálfun fyrir verðandi lögfræðinga, því að þeir lenda oft í að verja eða sækja mál án þess að geta valið sér málstað.

Samt mundi málflytjanda gagnast lítt að segja klósettbrandara í dómsal eða klippa hálsbindi af dómara. Ýkjur menntaskólanema í þessu minna á aðrar ýkjur, sem einkenna þá. Tolleringar voru í gamla daga meinlaust rugl, sem núna er búið að afskræma á ýmsa vegu.

Kappræður í mildara formi en nú virðast tíðkast hafa löngum einkennt málfundafélög í skólum. Íslendingum virðist henta vel hin lögfræðingslega hugsun, að mælska felist í að fá erfiðan málstað í fangið og þurfa að bera hann fram með margvíslegri hundalógík.

Meira að segja er sagt, að lögfræði útúrsnúninga hafi einkennt Íslendinga öldum saman. Er þá vísað til þeirrar þjóðaríþróttar fyrri alda að sigla til Kaupinhafnar með tapað mál og þjarka þar út með seiglunni breyttan úrskurð langþreyttrar konungshirðar.

Halldór Laxness orðar það svo: “Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða, hvenær sem komið er að kjarna máls.”

Þess verður vart meðal þekktra stjórnmálamanna íslenzkra, að þeir hafi snemma tekið í skóla trú á yfirburði sína í þessari sérgrein mælskulistar og líti á sig sem burtreiðamenn, er hafi sælastan sigur af því að snúa sem bezt og mest út úr sem erfiðustum málstað.

Svo gaman hafa tveir flokksformenn af því að hlusta á hundalógík sjálfra sín, að þeir hafa ferðazt saman um landið á svokölluðu “rauðu ljósi”, til að landsmenn geti klappað riddaramennsku burtreiðamanna lof í lófa. En þeir klippa þó ekki bindið af fundarstjóranum.

Annar þeirra heldur sem ráðherra fund með blaðamönnum svo sem á þriggja mánaða fresti. Þar leggur hann sig fram um að sanna, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Nú síðast sannaði hann með sjónhverfingum, að skattar væru óvenjulega lágir hér á landi.

Eftir hvert svona bað fara málsaðilar og fjölmiðlar úti í bæ að reyna að kafa niður í sjónhverfinguna. Þegar þeir eru búnir að finna hið rétta og gagnstæða í málinu, er ráðherrann búinn að missa áhugann og farinn að undirbúa nýja leiksýningu, nýjar burtreiðar.

Raunar er íslenzk þjóðmálaumræða svo fámenn, að samkomulag myndast ekki um, á hvaða lágmarksplani hún skuli vera. Þetta er ólíkt því, sem er í ýmsum nágrannalöndum, þar sem þegjandi samkomulag er um, að staðreyndir séu raktar og ekki sé snúið út úr.

Mælskulist í tali og skrifuðu máli felst ekki í séríslenzkri þjóðaríþrótt orðhengilsháttar og langsóttra lögskýringa. Hún felst ekki í að fara að tala um annað, þegar sést í kjarna máls, eða í að klippa hálsbindi.

Hún felst í að raða upp staðreyndum í þeirri röð, að ljós sé röksemdin, sem staðreyndirnar segja sjálfar.

Jónas Kristjánsson

DV