Keisarinn fær sitt

Greinar

Þar sem Íslendingar hafa ekki her, ættu skattar að geta verið heldur lægri hér en hjá öðrum þjóðum, sem telja sig sjálfar þurfa að halda uppi vörnum með dýrum tækjakosti. Nágrannaþjóðir okkar verja margar hverjar um 5% þjóðartekna til sviðs, sem við sleppum við.

Þar sem skattar í ríkjum Evrópubandalags og Efnahagssamvinnustofnunarinnar OECD eru um 40% þjóðarframleiðslu, ættu 35% að nægja hér í skattahlutfall. Í raun eru skattar hér á landi þó hinir sömu og þeir eru að meðaltali í ríkjum Evrópubandalags og OECD.

Deila má um, hvað séu skattar og hvað ekki. Þess verður að gæta, þegar borin er saman skattbyrði milli landa, að sömu liðir séu í dæminu í báðum tilvikum. Í ofangreindum hlutfallstölum hefur það verið gert á þann hátt, að tryggingar almennings eru taldar með.

Ef ýmsir liðir af slíku tagi eru dregnir frá, koma út lægri prósentutölur. Það gerði fjármálaráðherra, þegar hann boðaði landsmönnum fagnaðarerindið um, að skattar væru mjög lágir hér á landi. En hann dró þessa liði aðeins frá í hinni íslenzku hlið dæmisins.

Ef sömu liðir eru dregnir frá tölum nágrannaþjóðanna, kemur í ljós, að þær lækka svipað og þær gera hér á landi. Skattbyrðin er því hin sama hér á landi og í löndum Evrópubandalagsins og Efnahagssamvinnustofnunarinnar, þótt dæmið sé reiknað á ýmsa vegu.

Það er aðeins í Danmörku og Svíþjóð, að skattar eru umtalsvert hærri en þeir eru hér á landi. Ef við höldum okkur við útreikningana, sem sýna 40% skattbyrði hér á landi, er sambærileg skattbyrði 50­55% í þessum tveimur löndum. Þar með eru talin útgjöld til hermála.

Forsætisráðherra sagði á þingi framsóknarmanna um helgina, að hækka yrði skatta hér á landi, ef þjóðin vildi halda uppi almannaþjónustu í þeim mæli, sem nú er gert. Að öðrum kosti yrði að draga úr þjónustunni, sem opinberir aðilar veita borgurum landsins.

Óbeint var forsætisráðherra með þessu neyðarópi að afsaka, að ríkisstjórn hans hefur rekið ríkissjóð með fjögurra milljarða króna halla á þessu ári og hefur lagt fram á Alþingi fjárlagafrumvarp, sem felur í sér tæplega fjögurra milljarða króna halla á næsta ári.

Forsætisráðherra meinti með þessu, að hallinn á ríkissjóði væri ekki stjórninni að kenna, heldur þjóðinni, sem heimtaði fína þjónustu, en tímdi ekki að borga skattana, sem þyrfti til að standa undir þjónustunni. Þetta er freistandi ályktun, en eigi að síður röng.

Hið rétta er, að við borgum minna en Danir og Svíar, en hið sama og meðaltal auðþjóða gerir. Hið rétta er, að við borgum hið sama og aðrir, jafnvel þótt við spörum okkur 5%-in, sem aðrar þjóðir láta renna til hermála. Samt fáum við ekki meiri þjónustu hjá ríkinu.

Við fáum ekki meiri þjónustu fyrir skattana okkar, af því að hér á landi er beinn og óbeinn stuðningur við hefðbundinn landbúnað þyngri á hverjum skattborgara ríkisins. Íslenzkur meðalskattgreiðandi borgar meira en útlendur í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur.

Okkar skattbyrði er sambærileg við skattbyrði annarra þjóða, af því að við jöfnum upp sparnað okkar af að hafa ekki her með því að bera þyngri byrðar af stuðningi við hefðbundinn landbúnað, sem kemur þannig fjár hagslega í staðinn fyrir eigin her Íslendinga.

Vilji forsætis- og fjármálaráðherra krækja í meira fé úr vasa fólks, ættu þeir hreinlega að játa, að þeir séu þurftarfrekari en starfsbræður þeirra í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV