Líf að loknu köldu stríði

Greinar

Það bezta við stóra Evrópufriðarsamninginn í París var, að hann var orðinn úreltur, áður en hann var undirritaður af 34 þjóðarleiðtogum. Fyrir fundinn var orðið ljóst, að herveldin kæra sig ekki einu sinni um að hafa allan þann herbúnað, sem samningurinn leyfir þeim.

Sem dæmi má nefna, að samningurinn heimilar Varsjárbandalaginu að hafa 8000 skriðdreka í Mið-Evrópu. Sovétríkin ætla greinilega ekki að hafa neina skriðdreka á þessu svæði. Pólland og Tékkóslóvakíu munu sennilega hafa 2000 skriðdreka samtals á svæðinu.

Þar á ofan er tómt mál að tala um skriðdreka Varsjárbandalagsins, því að það er dautt, þótt formlegt andlát verði ekki tilkynnt fyrr en á næsta ári. Hinar nýju ríkisstjórnir í Austur-Evrópu kæra sig ekki um frekari aðild, en vilja komast í Atlantshafsbandalagið.

Bandaríkjamenn hafa verið að flytja helminginn af Evrópuherafla sínum til Arabíu, þar sem styrjöld er í aðsigi. Ósennilegt er, að heraflinn skili sér til baka nema að litlum hluta, þegar styrjöldinni er lokið. Spennan og öryggisleysið hefur greinilega flutzt frá Evrópu.

Atlantshafsbandalaginu hefur mistekizt að finna sér nýtt hlutverk, eftir að óvinurinn í austri fór að flosna upp. Til greina hefði komið, að það reyndi að víkka athafnasvæðið út frá Evrópu, en ekki eru horfur á því, úr því að það gat ekki haslað sér völl við Persaflóa.

Athyglisvert er, að stuðningur við Atlantshafsbandalagið kemur nú einkum frá austri, þar sem Vaclav Havel, forseti Tékkóslóvakíu, og margir fleiri sjá í því von um öryggi í tómarúminu, sem hefur myndazt í Austur-Evrópu við hrun Varsjárbandalagsins og Sovétríkjanna.

Öryggisstofnun Evrópu, sem nú verður komið á fót í Prag, mun stuðla að auknu öryggi í Evrópu, en ekki tryggja það. Öryggi Evrópu verður í framtíðinni ógnað á annan hátt en áður var. Því verður ógnað af ófriði, sem stafar af innanríkisátökum og ógnað að utan.

Dæmi um ógnun að utan höfum við í útþenslustefnu ríkisstjórnar Íraks, sem réðst fyrst til atlögu gegn Íran og innlimaði síðan Kúvæt. Ríkisstjórn Íraks safnar og beitir eiturvopnum, er að undirbúa framleiðslu kjarnavopna og hyggst efla hryðjuverk á Vesturlöndum.

Dæmi um ógnun að innan höfum við í vaxandi sundrungu í fjölþjóðaríkjum í Evrópu, Sovétríkjunum og Júgóslavíu. Í slíkum ríkjum er hugsanlegt, að herinn taki völdin, óvinsælar herstjórnir verði valtar í sessi og þar af leiðandi hernaðarlega óútreiknanlegar.

Nýir valdhafar í austri, svo sem Vaclav Havel, hafa áhyggjur af þessu. Nauðsynlegt er fyrir Vesturlönd að vera viðbúin vandræðum af því tagi. Þau þurfa að vera undir það búin að mæta óvæntri ógnun hryðjuverkastjórna að utan og herstjórna innan úr Evrópu.

Atlantshafsbandalagsins er áfram þörf til að mæta óvæntri ógnun hugsanlegra herstjórna í ríkjum á borð við Sovétríkin og Júgóslavíu. Hlutverk bandalagsins fer ört minnkandi, en það hverfur ekki alveg. Öryggisstofnunin nýja leysir ekki varnarbandalög alveg af hólmi.

Eftir hina miklu hreinsun ógnvekjandi vopna úr Mið-Evrópu verður erfiðara en áður að ryðjast fram með landheri og koma varnaraðila í opna skjöldu. Það verður svo verkefni eftirlitsstofnunar í Vín að fylgjast með vígbúnaði og fylgjast með tilfærslu á vígbúnaði.

Þótt kalda stríðinu sé formlega lokið, er nauðsynlegt að huga að vörnum Evrópu inn á við og út á við og efla stofnanir, sem geta stuðlað að öryggi álfunnar.

Jónas Kristjánsson

DV