Graham Greene lætur söguhetjuna í “Okkar manni í Havana” endursegja efni upp úr opinberum skýrslum og öðru prentuðu máli og skálda síðan upp heimildarmenn, sem hann telur síðan yfirboðurum sínum í London trú um, að hafi látið sig hafa upplýsingarnar.
Leyniþjónustur stórvelda eru sérkennilegt fyrirbæri, sem hafa ekki sérstaklega gott orð á sér fyrir nákvæmar upplýsingar, enda hafa þær oftar en ekki spáð rangt um framvindu mála. Þekktastar slíkra eru stofnanirnar KGB í Sovétríkjunum og CIA í Bandaríkjunum.
Stofnanir af þessu tagi eru mjög stórir mammútar, sem lúta lögmálum Parkinsons nákvæmar en aðrar opinberar stofnanir, af því að þær eru ekki undir eins mikilli smásjá og hinar opnu stofnanir ríkisins. Þær reyna að framleiða verkefni handa sér og þenja sig út.
Útsendarar slíkra stofnana eru margir og eiga óhægt um vik. Þeir þurfa að réttlæta laun sín og helzt að sýna nægan árangur í starfi til að geta klifið metorðastigann í kerfi Parkinsons. Þeir þurfa að framleiða skýrslur í stríðum straumum, hvort sem tilefnin eru mikil eða lítil.
Fyrir þá, sem stunda njósnir í opnu þjóðfélagi eins og tíðkast á Vesturlöndum, er áreiðanlega árangursríkast að fylgjast með opnum skýrslum og opnum fjölmiðlum, því að þar standa svart á hvítu níu hlutir af hverjum tíu, sem sagðir eru eða gerðir eru og marktækir eru.
Það virðist hins vegar löðurmannlegt fyrir njósnara að verða að játa, að hann hafi ekkert fyrir njósnum sínum, heldur sitji eins og kontóristi við endursagnir upp úr opnum upplýsingum. Betra er að fá sér svokallaða trúnaðarmenn, sem gera málið dálítið spennandi.
Það er til dæmis allt annað og líflegra að útlista fyrir yfirmönnum í Moskvu, að maður hafi farið úr íbúð sinni í fjölbýlishúsi fram á myrkvaðan stigagang til að hvíslast þar á við svokallaðan trúnaðarmann. En á íslenzkri tungu mundi slíkt framferði flokkast undir ölæði.
Sumir starfsmenn í erlendum sendiráðum hafa njósnir að starfi, einkum í of stóru og útbelgdu sendiráði á borð við Sovétríkjanna. Hins vegar hlýtur verkefnaskortur að vera mikill, því að hér er varla nokkuð merkilegt að njósna um, nema viðbúnaður á Keflavíkurvelli.
Magnús Þórðarson, fulltrúi NATO á Íslandi, sagði um þetta í DV: “Starfsmenn sendiráðsins hafa tilhneigingu til að mikla sambönd sín fyrir yfirmönnum sínum í von um starfsframa … Því getur venjulegt og alvanalegt upplýsingasamtal orðið að trúnaðarsambandi.”
Vafasamt er að taka mark á æsifréttum um óeðlilegt samband íslenzkra stjórnmálamanna við erlenda njósnara. Skemmst er að minnast upphlaupsins, sem varð, þegar rokufrétt barst frá Noregi um, að Stefán Jóhann Stefánsson hefði verið í tengslum við CIA.
Í það skipti fóru nornaveiðarnar út um þúfur, þegar fjölmiðlar könnuðu málið betur og moldviðrið lægði. Svo mun einnig verða í þetta sinn, þótt upplýst verði, að einhverjir nafngreindir stjórnmálamenn séu á upploginni trúnaðarmannaskrá hjá KGB í Moskvu.
Mesta afrek “okkar manns í Havana” var að senda leyniþjónustu sinni verkfræðiteikningar af ryksugu, sem olli miklum heilabrotum. Þeir í sendiráðinu ættu að senda heim loftmynd af fiskeldisstöð til að skapa atvinnu handa sérfræðingum í eldflaugaskotpöllum!
Skáldsaga Grahams Greene og raunveruleikinn eiga það sameiginlegt, að leynilegar upplýsingar eru yfirleitt lakari en þær upplýsingar, sem liggja á borðinu.
Jónas Kristjánsson
DV