500 daga átak

Greinar

Þrír hagfræðingar, sem til skamms tíma voru kenndir við Alþýðubandalagið, hafa lagt fram 500 daga áætlun um leið Íslands til markaðsbúskapar. Þeir eru af ráðnum hug að líkja eftir frægri 500 daga áætlun sovézkra hagfræðinga um leið Sovétríkjanna til markaðsbúskapar.

Það hastarlega í málinu er, að Sovétríkin eru nær því en Ísland að leggja út í 500 daga kapphlaup í átt til markaðsbúskapar. 500 dagarnir hafa verið samþykktir í stærsta lýðveldinu, Rússlandi, en framsóknarmaðurinn Ryzhkov þvælist fyrir í stjórn ríkjasambandsins.

Markaðsbúskapur er orðinn að sjálfsagðri hugmyndafræði í Sovétríkjunum á sama tíma og Íslendingar eru meira eða minna frosnir í skipulagshyggju, sem hefur náð fullkomnun í núverandi sjávarútvegsráðherra. Miðstýringarárátta tröllríður Íslandi enn.

Komið hefur í ljós í könnunum, að naumur meirihluti þjóðarinnar styður enn þann dag í dag framsóknarflokksstefnu allra stjórnmálaflokka um höft á borð við þau, að bannaður skuli innflutningur á þeirri búvöru, sem hægt er með ærnum kostnaði að framleiða heima.

Við erum að reyna að slípa nýjar reglugerðir um höft við, að fiskur sé seldur til útlanda í dýru ástandi, það er að segja ísaður. Við fáum fyrir hjartað, þegar minnzt er á erlendar fjárfestingar á Íslandi. Og hinn hefðbundni landbúnaður er friðhelgur sem fyrr.

Á sama tíma og Sovétmenn og einkum Rússar eru farnir að hreinsa út hjá sér, erum við að setja upp ný höft á borð við þau að banna innflutning á jólatrjám nema samkvæmt undanþágu hjá miðstýringarmönnum landbúnaðarráðuneytis. Við ætlum að sitja ein eftir.

Athyglisvert er, að það eru þrír hagfræðingar, sem til skamms tíma voru kenndir við Alþýðubandalagið, sem setja fram hugmynd um, að við hlaupum eins og Rússar út í markaðskerfi. Svo frosnir eru flokkarnir, að slíkar hugmyndir koma ekki frá Sjálfstæðisflokki.

Það eru aðallega hagfræðingar við Háskóla Íslands, sem hafa sett fram hugmyndir um að fara að þíða efnahagsfrostið hjá okkur. Og nú hafa þrír hagfræðingar, sem sagðir eru til vinstri, birt framkvæmdaáætlun markaðshyggjunnar í vinstra tímaritinu Þjóðlífi.

Skynsemi á þessu sviði virðist um þessar mundir helzt eiga aðgang að fólki, sem rambar á milli Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Hún á takmarkaðan aðgang að Sjálfstæðisflokknum, sem er hugmyndafræðilega orðinn að geldum hentistefnuflokki kerfisins.

Um Framsóknarflokkinn og Kvennalistann þýðir ekki að tala í þessu samhengi. Fyrrnefndi flokkurinn hefur frá ómunatíð verið fulltrúi hinnar hreinu ríkishyggju, miðstýringar. Kvennalistinn hefur í vaxandi mæli komið sér fyrir á sömu slóðum í stjórnmálum.

Hugtök á borð við hægri og vinstri eru að úreldast. Úti í heimi hafa flest stjórnmálaöfl leitað í átt til hins félagslega markaðsbúskapar, sem Ludwig Erhard gerði að efnahagsundri í Vestur-Þýzkalandi. Okkar efnahagsundur er hins vegar happdrætti í fiskverði í útlöndum.

Mikill hluti Íslendinga lítur eins og ítalskir fasistar á þjóðfélagið sem eins konar þjóðarlíkama, þar sem ein stór fjölskylda gerir þjóðarsátt um stórt og smátt, svo sem um, að sanngjarnt sé að vextir séu lágir og að fólk þurfi ekki að raska atvinnuháttum sínum og búsetu.

Ef hinn séríslenzki korpórasjónismi fer ekki að víkja fyrir alþjóðlegri markaðshyggju í 500 daga átaki, endum við með Albaníu sem síðasti móhíkaninn í Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV