Að öfunda spillinguna

Greinar

Venjulegur Íslendingur hefur það helzt við spillingu að athuga, að hann hafi ekki aðstöðu til að taka þátt í henni sjálfur. Menn öfundast út í ráðherra fyrir að næla sér í kaupauka með því að vera sem mest á ferðalögum, en gera ekkert í málinu sem kjósendur.

Þegar komst upp um kaupaukasvindl ráðherra fyrir rúmu ári, höfðu íslenzkir kjósendur þá milli tannanna skamma hríð. Það hafði engin áhrif. Nýbirt skýrsla um ferðalög ráðherra sýnir, að þeir hafa hert ferðalagasvindlið, síðan það var til umræðu í fyrrahaust.

Meginþráðurinn í svindlinu er, að ráðherrar fundu upp á því að láta ríkið borga alla ferðareikninga sína ofan á dagpeningana, sem ráðherrar fengu til að borga sömu reikninga. Þannig fóru þeir að ferðast eftir reikningi og fengu dagpeningana í hreinan kaupauka.

Hliðarþráður í svindlinu er, að ráðherrar láta gilda um skattlagningu ferðareikninga sinna aðrar reglur en þeir hafa sjálfir ákveðið, að gildi um aðra landsmenn. Ferðakostnaður ráðherra er allur skattfrjáls, en annarra Íslendinga aðeins upp að vissu marki, mun lægra.

Athyglisvert er, að tveir nýir ráðherrar, sem komu með nýjum stjórnmálaflokki inn í ríkisstjórnina fyrir rúmu ári, hafa tekið til óspilltra málanna í þátttöku í spillingunni. Annar þeirra hefur unnið það afrek að gista fyrir 80.000 krónur á nótt, samkvæmt bókhaldi.

Verið getur, að þessi gróska í spillingu stafi sumpart af, að ráðherrar telji, að hinar ljúfu gistinætur séu skammgóður vermir og að bezt sé að njóta þeirra sem mest, meðan ráðrúm sé til. Það getur skýrt, af hverju ráðherrar dauðvona flokks eru svona ferðaglaðir.

Forsætisráðherra hefur játað hér í blaðinu, að kerfið sé ferðahvetjandi. Það sést vel af því, að ráðherrann, sem er mest á ferðinni, hefur á þessu ári fengið fyrst alla reikninga borgaða og síðan skattfrjálsar 2,3 milljónir í hreinan kaupauka fyrir sig og ráðherrafrúna.

Ef þessi sami ráðherra væri alltaf í útlöndum, fengi hann allan kostnað borgaðan og síðan meira en 7 milljónir króna í skattfrjálsan kaupauka á hverju ári. Hver mánuður í útlöndum er ráðherranum meira en 500 þúsund krónum verðmætari en aðrir mánuðir ársins.

Ráðherraspillingin lýsir sér í ótal myndum. Til dæmis hefur forsætisráðherra sagt, að það sé fáránlegt, að hann og félagar hans greiði hlunnindaskatt af notkun ríkisbíls. Ef það er fáránlegt, af hverju hefur hann þá komið upp slíkum hlunnindaskatti á aðra landsmenn?

Ráðherrar hafa skammtað sjálfum sér margfalt betri kjör við öflun lífeyrisréttinda en gilda um aðra landsmenn. Með þessum hætti einum nær forsætisráðherra sér í aukatekjur, sem jafngilda 138.000 krónum á mánuði fyrir utan allar aðrar tekjur með öðru svindli.

Öll eru mál þessi upplýst. Um þau hefur verið rækilega fjallað í fjölmiðlum. En þjóðin gerir ekkert með það. Nýlega héldu tveir stjórnarflokkanna aðalfundi sína, án þess að nokkur viðstaddra reyndi að hafa uppi mótbárur gegn spillingu sinna manna í ríkisstjórninni.

Mikill hluti kjósenda álítur líka, að eðlilegt sé, að menn noti aðstöðu sína sér og sínum til framdráttar eins og í þriðja heiminum. Kjósendur úti á landi ætlast líka til, að seta stjórnmálamanns við ríkiskatlana leiði til fyrirgreiðslu við byggðarlagið og kjördæmið.

Siðferðilega eru Íslendingar á stigi þriðja heimsins. Þess vegna komast ráðherrar upp með stjarnfræðilegt hugmyndaflug við að krækja sér í viðbótaraura.

Jónas Kristjánsson

DV