Versnar fyrst ­ batnar svo

Greinar

Hinar alþjóðlegu viðræður í Bruxelles um lækkun tolla og hafta fóru út um þúfur í fyrrinótt. Verndarstefna mun nú eflast á nýjan leik. Fulltrúar 107 ríkja samþykktu að breiða yfir þessa staðreynd með kurteislegu orðalagi um, að málið verði tekið upp síðar.

Tolla- og viðskiptastofnunin GATT hefur beðið mikinn hnekki. Víða um heim eru reiðir stjórnmálamenn tilbúnir með tillögur um að hefna sín á útlendingum með lagafrumvörpum um aukna verndun innlendra atvinnuvega. Mest hætta er á þessu í Bandaríkjunum.

Ef samkomulag hefði náðst í fyrrinótt, var til heimild þar vestra um að staðfesta niðurstöðuna í heilu lagi. Sú heimild er nú að renna út, svo að bandaríska þingið verður að fjalla um einstaka liði samkomulags, sem hugsanlega yrði gert síðar í vetur á vegum GATT.

Allir vita, að þetta er fyrst og fremst Þýzkalandi og Frakklandi að kenna. Þessi tvö höfuðríki Evrópubandalagsins hafa reynzt ófáanleg til að brjóta niður múrana í kringum landbúnaðinn. Af þessum ástæðum er nú um allan heim litið á Evrópubandalagið sem vonda karlinn.

Formlega séð bauðst bandalagið til að lækka tollmúra sína og höft um 30%, en efnislega fól tilboðið í sér 15% lækkun frá núverandi ástandi. Þetta var ekki nóg fyrir Bandaríkin og önnur hagkvæm landbúnaðarríki á borð við Ástralíu, Nýja-Sjáland, Uruguay og Argentínu.

Í fyrstu munu áhrifin verða slæm. Tollmúrar verða hækkaðir og lífskjör almennings munu versna. Mest verða áhrifin á landbúnaðarafurðir og fiskafurðir, sem alls staðar nema á Íslandi eru flokkaðar með búvöru. Þetta getur skaðað helztu útflutningsafurðir okkar.

Skaði okkar fælist fyrst og fremst í, að sjávarútveginum í Bandaríkjunum tækist að koma tollum á innfluttan fisk, til dæmis frystan. Bandaríska þingið er til alls víst í þessum efnum, þótt þessa dagana sé ekkert vitað um, hvar verndarsinnaðir þingmenn muni bera niður.

Ef mál þokast á þennan veg í Bandaríkjunum, getum við ekkert gert til varnar. Sovétgrýlan er úr sögunni. Bandarískum þingmönnum er hjartanlega sama um, hvort eftirlitsstöð er á Keflavíkurflugvelli eða ekki. Þeir taka heldur ekkert mark á stjórninni í Washington.

Almennt má líka segja, að aukin verndarstefna og hefndarstefna í alþjóðaviðskiptum mun skaða okkur, þótt erfitt sé að spá um, hvernig það gerist í einstökum tilvikum. Þjóðir, sem eru háðar utanríkisviðskiptum, tapa þjóða mest á innflutningshöftum og tollum.

Helzta von okkar er, að Þjóðverjum og Frökkum bregði svo í brún við afleiðingar af þvermóðskunni í Bruxelles, að tök landbúnaðarins á Evrópubandalaginu fari að linast. Aðrir atvinnuvegir og neytendur sjái betur, hvað landbúnaðurinn er þeim þungur í skauti.

Hugsanlegt er, að evrópskir neytendur rísi loksins upp til varnar, þegar þeir sjá tjón sitt af völdum haftastefnunnar. Brezku neytendasamtökin hafa tekið upp harðari stefnu gegn verndun landbúnaðar. Hér á landi hafa Neytendasamtökin fetað feimnislega í sömu átt.

Hrunið í viðræðunum í fyrrinótt mun lemja þá staðreynd inn í hausinn á mörgum, að niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og aðrir styrkir við landbúnað eru hæsti þröskuldurinn á vegi mannkyns til betri lífskjara. Hrunið kann því að leiða til góðs í framtíðinni.

Fríverzlun og lífskjör biðu skammtímahnekki í viðræðunum í Bruxelles. Ástand mála var slíkt, að það verður að versna, áður en það byrjar að batna aftur.

Jónas Kristjánsson

DV