Ráðherra og reglugerð

Greinar

Enn einu sinni hefur verið lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um takmörkun á upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi. Er það nokkru lakara en hin, sem ekki urðu útrædd á sínum tíma. Það er samið af kerfiskörlum og ber þess greinileg merki.

Í þetta sinn gerir frumvarpið ráð fyrir, að hver ráðherra fyrir sig hafi sjálfdæmi í sinni sök. Áður gerðu slík frumvörp ráð fyrir, að unnt væri að kvarta undan upplýsingatregðu og leyndarstefnu ráðherra við fimm manna nefnd, skipaða af Alþingi og Hæstarétti.

Frumvarpið heitir hinu undarlega nafni: “Frumvarp til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda”. Þessi þversagnakennda nafngift minnir á bók Georges Orwell, “1984″, þar sem pyndingaráðuneytið hét ástarráðuneyti og hernaðarráðuneytið hét friðarráðuneyti.

Í nýja frumvarpinu er beinlínis tekið fram í 8. grein, að hver ráðherra fyrir sig geti tekið aftur með reglugerð þær almennu yfirlýsingar um upplýsingaskyldu, sem felast í 1. og 2. grein þess. Þar með er hin svokallaða upplýsingaskylda orðin að hreinum ráðherrageðþótta.

Einnig er beinlínis tekið fram í 11. grein frumvarpsins, að forsætisráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Þetta dálæti á reglugerðum, sem kemur fram í 8. og 11. grein frumvarpsins, er dæmigert fyrir hugarfarið hjá kerfiskörlum.

Hin ljúfu kerfisorð, “reglugerð” og “ráðherra”, koma einnig fyrir í 1. grein frumvarpsins, þar sem tekið er fram, að forsætisráðherra megi, ef hann langar til, setja reglugerð um, að frumvarpið gildi um stofnanir, sem kostaðar eru af ríkinu eða hafa stjórnvaldsverkefni.

Til þess að fyrirbyggja misskilning er sérstaklega tekið fram í 10. grein frumvarpsins, að ákvæði eldri laga um þröngan eða engan aðgang að upplýsingum skuli gilda áfram, þótt þessi nýju lög komi til skjalanna. Þau eiga sem sagt ekki að auka svigrúm frá fyrri lögum.

Samkvæmt 2. grein frumvarpsins verður ósk um gögn að vera skrifleg, en hingað til hafa þær yfirleitt verið munnlegar og jafnvel settar fram í síma. Og samkvæmt sömu grein verður fyrirspyrjandi að vita fyrirfram, hvað sé í hverju skjali og hvað skjölin heita.

Ekki eru í opinberum stofnunum aðgengilegar skrár um skjöl, heiti þeirra og efnisyfirlit. Og frumvarpið gerir ekki ráð fyrir, að stofnanir verði skyldaðar til að hafa á boðstólum slíkar skrár. Menn verða því fyrirfram að vita um svör við því, sem þeir eru að spyrja um.

Frumvarpið er gegnsýrt því, að kerfiskörlum í ráðuneytum finnst óbærilegt, að almenningur eða fjölmiðlar séu með nefið niðri í málum, sem eru til meðferðar í kerfinu. Þeir vilja hafa sín leyndarmál í friði. Margnotuð klisja þeirra er: “Þetta er ekkert fjölmiðlamál”.

Nefndin, sem samdi frumvarpið um takmörkun á upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart almenningi, segist í greinargerð hafa kynnt sér bandarísk lög og haft hliðsjón af norrænum. Hún ákvað að taka ekki mark á bandarísku lögunum og útvatna hin norrænu.

Frumvarpið minnir á, að brýnt er orðið að veita viðnám gegn þeirri þjóðfélagsskipan ráðherraveldis og geðþótta-reglugerða, sem hvarvetna er unnið að í ríkiskerfinu og gert hefur Alþingi að afgreiðslustofnun fyrir meira eða minna opnar heimildir handa ráðherrum.

Reglugerðir handa ráðherrum eru orðnar svo sjálfsagður hornsteinn þjóðfélagsins, að mati kerfiskarla, að frumvarpssmiðir segjast hafa unnið að réttarbót.

Jónas Kristjánsson

DV