Seinþroska þjóð

Greinar

Þótt leyfi til innflutnings búvöru hafi ekki verið mikið til umræðu hér á landi fyrr en á þessu ári, er nærri þriðjungur þjóðarinnar reiðubúinn til að fallast á hann. Þetta eru 31% á móti 64%, sem vilja áfram bann. Þetta bendir til, að sjálfsrefsingarstefnu séu takmörk sett.

Stuðningur við innflutning minnkar, þegar spurningin er tengd byggðaröskun, fer í 16% á móti 77%. Hann eykst hins vegar, þegar spurningin er tengd aðgangi að ódýrari búvöru, fer í 40% á móti 54%. Þessar sveiflur sýna vel, að svigrúm er til breyttra sjónarmiða.

Stuðningur þjóðarinnar við niðurgreiðslur er enn í naumum meirihluta, 47% á móti 43%. Þessi meirihluti byggist á, að þjóðin hefur enn sem komið er neitað sér um að fallast á það sjónarmið, að niðurgreiðslur séu fyrir landbúnað, en ekki fyrir neytendur í landinu.

Hin eina róttæka stefnubreyting þjóðarinnar í málefnum hins hefðbundna landbúnaðar er, að hún vill hætta uppbótum á útflutta búvöru. Aðeins 10% styðja útflutningsuppbæturnar, sem eiga á næsta ári að nema 1300 milljónum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

Ef ríkisvaldið gerir fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda nýjan búvörusamning við landbúnaðinn, er brýnt, að tekið verði tillit til þeirrar staðreyndar, að þjóðin er þegar orðin afhuga útflutningsuppbótum. Enda hefur ríkissjóður nægum brýnni verkefnum að sinna.

Þjóðinni er ekki alls varnað í sjálfsbjargarviðleitni, úr því að hún vill losna við 1.300 milljón króna árlegan bagga. En þetta verður að skoða í samhengi við, að fólk vill áfram bera skatt, sem nemur 5.700 milljón króna árlegum niðurgreiðslum og endurgreiddum söluskatti.

Fyrir sama framlag úr ríkissjóði væri hægt að styrkja hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu um 91.200 krónur á ári. Þessa peninga gæti fólk notað til að kaupa aðra matvöru en hina niðurgreiddu, til dæmis fisk og kornvöru. Á þessu hafa Íslendingar ekki áttað sig enn.

Viðhorf Íslendinga til hins hefðbundna landbúnaðar eru enn svipuð og þau eru í höfuðríkjum Evrópubandalagsins, svo sem Þýzkalandi og Frakklandi, en ólík því sem þau eru í Bretlandi og Bandaríkjunum, enda er fyrirferð landbúnaðar svipuð hér og á meginlandinu.

Í löndum, þar sem landbúnaður hefur enn um og yfir 7% mannaflans, svo sem hér og í helztu löndum Evrópubandalagsins, á atvinnugreinin og byggðasjónarmiðin, sem henni fylgja, nógu mikil ítök í fólki til að ráða ferðinni, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi.

Í löndum, þar sem landbúnaður er kominn niður í 2% mannaflans, svo sem í Bretlandi og Bandaríkjunum, er auðveldara að fá skilning fólks á sjónarmiðum hagsmuna heildarinnar. En jafnvel í slíkum löndum er ótrúleg seigla í hagsmunagæzlu hefðbundins landbúnaðar.

Íslenzkir hagfræðingar hafa í vaxandi mæli beint sjónum sínum að hinni feiknarlegu verðmætabrennslu, sem er í hefðbundnum landbúnaði okkar. Þeir hafa komizt að raun um, að engin verðmætasköpun er í greininni, þótt bændur leggi á sig mikla fyrirhöfn.

Íslenzkir hagfræðingar hafa með mismunandi reikningsaðferðum fundið út, að innflutningsbann búvöru kostar okkur 10­15 milljarða króna á hverju ári, ofan á þá 7,5 milljarða, sem fara í annan stuðning við landbúnaðinn. Þetta er samtals um 20 milljarða sóun á ári.

Meirihluti fólks hefur ekki enn áttað sig á þessu. Hann er enn að væla um léleg lífskjör, en er um leið ófáanlegur til að horfast í augu við meginorsök vandans.

Jónas Kristjánsson

DV