Doheny & Nesbitt’s
Hefðbundin og fremur þreytuleg drykkjukrá stjórnmálanna innan um söngkrárnar í Baggot Street er Doheny & Nesbitt, ein frægasta krá miðbæjarins.
Þetta er afar dimm og afar lítil krá með ljótu dúkagólfi og rifnum auglýsingaspjöldum og speglaauglýsingum á veggjum, svo og stórum leirkerjum uppi undir lofti. Spegluð skilrúm eru við barinn og gera hann enn þrengslalegri.
Kráargestir koma úr þinghúsinu og stjórnarráðinu handan við hornið, stjórnmálamenn, þingfréttaritarar og embættismenn.
(Doheny & Nesbitt, 5 Lower Baggot Street, E2)
Baggot Inn
Rokkkrá miðbæjarins er Baggot Inn, snyrtileg krá við samnefnda söngkráagötu.
Kráin er fremur fínleg og björt af söngkrá að vera, U-laga og tvískipt. Speglar eru á súlum og lág skilrúm við veggi, þar sem hanga málverk og ljósmyndir af rokkurum.
Hingað koma gestir til að hlusta á nýjustu rokkhljómsveitirnar, sem einkum halda tónleika á hæðinni fyrir ofan.
(The Baggot Inn, Lower Baggot Street, D2)
Toner’s
Helzta listamannakrá borgarinnar er Toner’s við Baggot Street, 200 ára gömul krá, sem er að mestu leyti með upprunalegu útliti og raunar næsta þreytuleg.
Við barborð úr mahoní eru speglaðar stúkur og þröngar. Í barveggnum eru miklar skúffur og margar, leifar frá þeim tíma, er hér var einnig nýlenduvöruverzlun. Gamlar bækur eru þar fyrir ofan. Mikið flísaskraut er fyrir barenda og glerskápur með minjagripum andspænis barnum.
Meðal gesta er töluvert af samræðugóðum skáldum og fólki, sem heillast af samræðugóðum skáldum.
(Toner’s, 139 Lower Baggot Street, E1)
Abbey Tavern
Á endastöð borgarjárnbrautarinnar við Howth-höfða í norðri er þjóðlagakrá fyrir ferðamenn, sú bezta af því tagi. Það er Abbey Tavern við bratta götu upp frá höfninni.
Dagskráin fer fram í stórum sal að kráarbaki, þar sem margir rútufarmar ferðamanna sitja og fá sér snæðing við kertaljós fyrir skemmtunina, sem verður flestum minnisstæð.
Hljóðfæraleikararnir og söngvararnir spanna yfir breitt svið írskra þjóðlaga frá ýmsum tímum, fornum og nýjum. Þeir leika einkum á fiðlur og gítara, en einnig á skeiðar og blístrur og pípur. Tónlistin er ósvikin og sagnfræðilega rétt, en nær eigi að síður að hjörtum erlendra áheyrenda. Þetta er fyrsta flokks skemmtun.