Vesturveldin hafa ákveðið, að Gorbatsjov Sovétforseti sé eina vonin um sæmilegan frið í austri og gera sitt bezta til að styðja miðstjórnarvald hans í Kreml. Þau styðja því ekki sjálfstæðishreyfingar í einstökum Sovétríkjum, svo sem í Eystrasaltsríkjunum þremur.
Röksemdafærslan að baki vestræns stuðnings við Gorbatsjov er, að Sovétríkin rambi á barmi blóðugra átaka og að harðlínumenn úr her og leynilögreglu muni taka völdin, ef Gorbatsjov falli. Þess vegna sé Vesturlöndum nauðsynlegt, að Gorbatsjov haldi völdum.
Gorbatsjov er þegar farinn að virkja her og leynilögreglu til að verja sig falli í þeirri átt. Harðlínumenn úr þessum flokkshollu stofnunum hafa verið settir yfir innanríkisráðuneytið, þar á meðal lögregluna. Þar með er stjórnarfarið aftur á leið til fortíðarinnar.
Gorbatsjov hefur hlaðið að sér formlegum völdum að undanförnu, en hefur þó ekki stjórn á neinu. Stjórnir einstakra ríkja virða að vettugi lög og reglugerðir frá Kreml. Þing einstakra ríkja hafa sett eigin lög um, að heimalög séu Kremlarlögum æðri, ef þau stangast á.
Þjóðerni er orðið að hornsteini tilverunnar á upplausnartíma. Þjóðernistilfinningar hafa magnazt svo, að sums staðar hefur leitt til blóðsúthellinga. Víða eru þjóðernisminnihlutar innan í þjóðernisminnihlutum og flækir það erfiða stöðu Kremlverja enn frekar.
Afturhaldsmenn flokksins sitja á skrifstofum með stimplana og reyna að magna öngþveitið, svo að her og leynilögregla taki völdin. Þeir reyna líka að koma í veg fyrir, að matvæli komist til stórborganna Moskvu og Leníngrad, þar sem flokksleysingjar hafa völd.
Afstaða Vesturlanda er skiljanleg. Utanríkisráðuneyti stórvelda hneigjast að stuðningi við valdhafa hvers tíma í löndum þriðja heimsins. Þau telja sig vita, hvar þau hafi þessa valdhafa, “okkar menn”, sem margir hverjir eru lítt frambærilegir eða jafnvel hreinir bófar.
Fyrst og fremst er það óttinn við óvissuna, sem stjórnar stuðningi Vesturlanda við miðstjórn Gorbatsjovs. Menn sjá fyrst og fremst fyrir sér upplausnina, sem jafnan fylgir falli einræðis og alræðis, en líta síður til þess jákvæða, sem síðar kann að rísa á rústum þess.
Miklar birgðir kjarnorkuvopna í Sovétríkjunum eru vestrænt áhyggjuefni, ef margir smákóngar rísa á rústum Kremlarveldis. Ekki er hægt að sjá fyrir, hvar þau lenda, ef ríkjasambandið leysist upp. Og sumir smákóngarnir kunna að reynast illa útreiknanlegir.
Gorbatsjov er Vesturlöndum einnig mikilvægur bandamaður í baráttunni gegn Íraksstjórn Saddams Hussein. Það er því ekki bara vegna kjarnorkuvopnanna, að hernaðarfræðingar vestrænna ríkisstjórna vilja standa við bakið á hinum valta alræðisherra.
Af öllum þessum ástæðum miðast hjálp Vesturlanda handa Sovétríkjunum einkum við að halda lífi í Kremlarveldi Gorbatsjovs. Aðstoðin hefur að markmiði, að borgarbúar í Moskvu og Leníngrad svelti ekki og leiðist ekki til uppþota. En hún hefur ekkert efnahagsgildi.
Aðstoð Vesturlanda stefnir líka að því að draga úr hljómgrunni fyrir valdatöku afla innan hers og leynilögreglu, um leið og Gorbatsjov reynir að beina athygli þessara afturhaldssömu flokksstofnana að baráttu við svartamarkaðsbrask og skipulega viðskiptaglæpi.
Um leið skjóta Vesturlönd stoðum undir miðstýrða skömmtunarstjórn og fresta því, að Sovétríkin taki nauðsynlegt stökk út í óvissu markaðshagkerfisins.
Jónas Kristjánsson
DV