Þing og þjóð án ábyrgðar

Greinar

Ásgeir Hannes Eiríksson alþingismaður hefur lagt fram á þingi frumvarp til laga um, að ekki megi taka til meðferðar lagafrumvörp, sem hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð, nema einnig sé í frumvarpinu ákvæði um samsvarandi tekjur handa ríkissjóði.

Ásgeir vill með þessu, að ráðherrar og þingmenn verði allt í einu ábyrgir í flutningi tillagna. Á því er misbrestur, svo sem Sighvatur Björgvinsson, formaður fjárveitinganefndar, kvartaði um í síðustu viku. Menn vilja góðu málin, en hirða lítt um kostnaðinn af þeim.

Tillaga Ásgeirs minnir á hugmyndir, sem komið hafa fram um, að notendur heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkrahúsa og niðurgreiddra lyfja, verði látnir handfjatla reikninga með tölum um raunverulegan kostnað af þjónustunni, sem þeim finnst sjálfsagt að fá.

Nóg væri, að ráðherrar og þingmenn yrðu skyldaðir til að útskýra í greinargerð, hver væri kostnaðurinn við framkvæmd á tillögum þeirra og frumvörpum, og að Alþingi yrði sjálft skyldað til að láta skoða kostnaðinn sérstaklega og taka efnislega afstöðu til hans.

Slíkt yrði eins mikil bylting til bóta og reikningarnir, sem lagt hefur verið til, að notendum heilbrigðisþjónustu verði sýndir. Leiðin í frumvarpi Ásgeirs getur hins vegar leitt til, að upp þjóti margs konar eyrnamerktir tekjustofnar, svo að af verði skógur af smásköttum.

Í frumvarpinu reynir Ásgeir að taka á vandamáli, sem ekki er bundið við ráðherra og þingmenn eina. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra kvartaði fyrr í þessari viku um tvískinnung þjóðarinnar. Hún vildi í senn aukna þjónustu ríkisins og minni skatta til ríkisins.

Í skoðanakönnunum hefur margsinnis komið fram, að þjóðin styður endalausa röð af góðum málum, sem kosta mikið fé, og vill jafnframt létta af skattbyrði eða að minnsta kosti ekki taka á sig aukna byrði. Þjóðin sem heild er óraunsæ, rétt eins og ráðherrar og þingmenn.

Að vísu er til ein leið til að auka þjónustu ríkisins og minnka skattana til ríkisins. Það er að leggja niður stuðning ríkisins við hinn hefðbundna landbúnað, afnema innflutningsbann, útflutningsbætur, niðurgreiðslur og beina styrki, sem alls sóa 20 milljörðum á ári.

Meirihluti þjóðarinnar getur hins vegar ekki notað þessa röksemdafærslu með aukinni þjónustu og lægri sköttum, af því að hann styður innflutningsbann, niðurgreiðslur og beina styrki. Það eina, sem meirihlutinn vill afnema, er einn milljarður í útflutningsuppbætur.

Þar sem meirihluti þjóðarinnar og stjórnmálamenn upp til hópa hafa með sér þjóðarsátt um óraunsæi í fjármálum, stendur Alþingi nú andspænis afgreiðslu fjár laga með miklum halla, sem nemur sjö til átta milljörðum á A- og B-hluta og átta til níu milljörðum á C-hluta.

A-hlutinn felst í hinum formlegu fjárlögum. B-hlutinn eru stofnanir ríkisins, sem fjallað er um í fjárlögum. C-hlutinn er svo það, sem felst í lánsfjárlögum, þar sem áætlaðar eru lántökur opinberra sjóða. Samanlagður halli á öllum þremur liðum er svonefndur þensluhalli.

Alls mun sá halli nema sextán milljörðum á næsta ári, ef svo fer sem horfir við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga. Það er um 4,4% af landsframleiðslu og ætti samkvæmt fyrri reynslu að fara upp í 6,8%, þegar öll kurl verða komin til grafar, helmingi meira en í ár.

Reikningurinn af sextán milljarða þensluhalla ársins verður sendur afkomendum okkar, en við ætlum sjálf að borga vextina með aukinni verðbólgu, hærri raunvöxtum og erfiðari varðstöðu um svokallaða þjóðarsátt.

Jónas Kristjánsson

DV