Stríð er bezt

Greinar

Berum orðum má tæpast segja það, en staðreynd er það samt, að mesta hættan við Persaflóa er, að ekki verði stríð. Nokkrar líkur eru á, að Saddam Hussein Íraksforseta takist að skjóta sér undan stríði með ýmsum sjónhverfingum rétt fyrir miðjan þennan mánuð.

Reikna má með, að hann leggi fram á síðustu stundu óljóst tilboð um, að draga her sinn til baka frá mestum hluta Kúvæt einhvern tíma í náinni framtíð, gegn ýmsum skilmálum, svo sem um samdrátt bandaríska hersins í Sádi-Arabíu og um alþjóðaráðstefnu um Palestínu.

Þótt árásarstefna Saddams Hussein hafi hingað til beinzt að öðrum ríkjum íslams, Íran og Kúvæt, er hætt við, að hann geti orðið að eins konar hetju Palestínu með því að fara að tala meira um hana. Með sjónhverfingum getur hann sáð sundrungu í raðir bandamanna.

Tætingslegt er bandalagið gegn honum og sumpart lítt geðugt. Þar í hópi er annálað hryðjuverkaríki á borð við Sýrland, sem hefur orðið Vesturlöndum til mikilla vandræða og á eftir að verða það. Þar í hópi er líka annálað miðaldaríki á borð við Sádi-Arabíu.

Sovétríkin koma að litlu gagni í bandalaginu gegn Hussein, því að stjórn Gorbatsjovs er á hraðri leið til afturhalds og aukinna áhrifa hers og leynilögreglu. Meira að segja er lítið hald í vesturevrópsku ríki á borð við Frakkland, sem gjarna fer eigingjarnar sérleiðir.

Almenningsálitið á Vesturlöndum styður enn stríð við Persaflóa, þótt myndazt hafi andstöðuhópar. Helzt er það heima fyrir í Bandaríkjunum, að Bush forseti á erfitt með að halda liðinu saman. En stuðningurinn getur fjarað út, þegar sjónhverfingar Saddams byrja.

Saddam getur komizt upp með að halda hluta af Kúvæt. Hann getur komizt upp með að greiða ekki tjón-ið, er hann hefur valdið Kúvætum. Hann getur komizt upp með að verða forustumaður ríkja íslams í baráttu þeirra gegn kúgum Ísraelsríkis á Palestínumönnum.

Ef ekki verður að þessu sinni stríð við Persaflóa, leiðir það til sigurs Saddams Hussein á einu eða fleirum framangreindra sviða. Honum nægir að ná sjáanlegum árangri á einu þeirra til að verða heima fyrir fastari í sessi en fyrr og hættulegri umhverfi sínu en fyrr.

Ódýrast er að stöðva Saddam Hussein núna, þótt það kosti stríð, sem ýmsir horfa nú til með hryllingi. Miklu dýrara og blóðugra verður að stöðva hann síðar, þegar hann er búinn að koma sér betur fyrir, búinn betri efna- og eiturvopnum og jafnvel kjarnavopnum.

Einnig skiptir máli, hvort forusta íslamskra ríkja lendir hjá ríkjum, sem standa nálægt vestrænu þjóðskipulagi, svo sem Egyptalandi og Tyrklandi, eða hvort heimur íslams færist meira í mót Saddams Hussein. Ef hann sigrar, munu önnur ríki íslams líkja eftir Írak.

Loks er brýnt, að Bandaríkin nái árangri í lögreglustjórahlutverkinu, sem þau hafa tekið að sér í máli þessu. Ef þeim mistekst, er líklegt, að þau hverfi meira inn í sig og að enginn verði til að taka forustu fyrir Vesturlöndum gegn uppgangi bófa víða um heim.

Eftir hvarf Sovétríkjanna af vettvangi heimsveldanna eru Bandaríkin eina heimsveldið, sem getur tekið að sér forustu í mikilvægum og óþægilegum málum, er varða öryggismál þjóða heims. Baráttan við Saddam Hussein er fyrsta prófraun þeirra sem síðasta heimsveldisins.

Þótt stríð séu vond, eru þau ekki svo vond, að Vestur-lönd megi þess vegna neita sér um löggæzluvald til að gæta grundvallarreglna í samskiptum ríkja og þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV