Sigur í fyrstu lotu

Greinar

Gagnsókn bandamanna gegn Íraksher gekk mjög vel í nótt. Svo virðist sem lofthernaður af hálfu Írakshers hafi nær algerlega lamast þegar í upphafi. Því kom í nótt eða morgun ekki til hinna alvarlegu hliðaráhrifa, sem bent hafði verið á, að gætu verið hættuleg.

Mestu máli skiptir, að flugher og skæruliðum Saddams Hussein tókst ekki að flækja Ísrael inn í styrjöldina. Þeim tókst ekki að koma einni einustu sprengju til Ísraels. Þar varð alls ekkert tjón, svo að her Ísraels situr enn á friðarstóli, eins og ekkert hafi í skorizt.

Þar með eru engar líkur á, að alvarleg skörð rofni í samstöðu vestrænna og íslamskra bandamanna í gagnsókninni. Íslamskar ríkisstjórnir virðast því ekki munu lenda í neinum vandræðum með að réttlæta gagnvart sínu fólki stöðu sína við hlið vestrænna bandamanna.

Næstmestu máli skiptir, að herafla Saddams Hussein hefur ekki tekizt að koma af stað neinum umtalsverðum eldsvoðum í olíulindum á yfirráðasvæði bandamanna, til dæmis í Saudi-Arabíu. Aðeins hefur frétzt af einum eldsvoða og hann virðist vera í meira lagi viðráðanlegur.

Þar með eru engar líkur á, að gagnsóknin og viðbrögð við henni leiði til hinna hættulegu umhverfisáhrifa á lofthjúp jarðar á þessum slóðum. Enginn fimbulvetur er í aðsigi, þótt dómsdagsspámenn hafi reynt að halda slíku fram á undanförnum dögum og vikum.

Þriðja mikilvæga atriðið er, að bandamönnum virðist hafa tekizt nokkurn veginn alveg að taka úr umferð öll mannvirki Írakshers, sem nýta hefði mátt til lofthernaðar gegn þeim. Þannig er flugher Íraks búinn að vera, hernaðarlegir flugvellir og skotpallar eldflauga.

Síðasta atriðið skiptir miklu. Margir óttuðust, að her Saddams Hussein tækist að koma efna- og eiturvopnum í eldflaugum til fjarlægra staða. Það hefur ekki gerzt og virðist ekki geta tekizt. Ennfremur hefur eiturverksmiðjum hans verið eytt. Þetta er frábær árangur.

Fyrsta lotan hefur að öllu leyti farið eftir eða fram úr björtustu vonum þeirra, sem um málið hafa fjallað á Vesturlöndum. Stríðið er að vísu ekki búið, en verstu óvissuþættirnir eru að baki. Svokallaðir stríðsæsingamenn á Vesturlöndum eru auðvitað fegnir útkomunni.

Nú tekur við það, sem getur orðið langdregið. Það er að færa sigur í lofti yfir í sigur á landi. Verkefnið verður fólgið í að koma hundruðum þúsunda hermanna Saddams Hussein í skilning um, að frekari barátta leiðir bara til ófarnaðar, svo að bezt sé að hætta henni.

Bezta framhaldið væri, að Írakar veltu úr sessi óargadýrinu, sem hefur komið þeim í þessi hrikalegu vandræði. Enginn vafi er á, að Saddam Hussein er hataður af meirihluta Íraka, þótt menn hafi klappað og dansað og hrópað húrra til að vera ekki teknir af lífi.

Þegar valdakerfið hrynur umhverfis einræðisherra af tagi Saddams Hussein, hefur oft komið í ljós, að tómarúm er eftir. Í slíku tómarúmi er hægt að fá heilar hersveitir til að leggja niður vopn og fagna því, að yfirmaður þeirra og kúgari hefur misst völd yfir þeim.

Sérstök ástæða er svo til að fagna því, að friðardúfum og nytsömum sakleysingjum hefur ekki tekizt að lama Vesturlönd svo, að bandamönnum tækist ekki að koma af stað þeirri gagnsókn, sem sagnfræðilega á eftir að skipta sköpum í útþenslu lýðræðis í heimi íslams.

“Stríð er bezt” var yfirskrift leiðara hér í blaðinu fyrir skömmu. Þetta stríð er nú hafið og virðist ætla að falla í þann farveg, sem stríðssinnar höfðu reiknað með.

Jónas Kristjánsson

DV