Ástmögur Vesturlanda

Greinar

Einræðisherra Sovétríkjanna var strax metinn að verðleikum í leiðara DV fyrir rúmum fimm árum: “Óskhyggjan á Vesturlöndum kemur m. a. fram í trú sumra á, að hinn nýi framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins sé mannlegri en fyrirrennarar hans.

Það er hreinn og klár misskilningur. Gorbatsjov hefur sýnt mikinn áhuga á að knýja þræla sína til meiri afkasta … Hann er hlynntur járnaga, mun harðskeyttari en Tsjernenko og Bresnjev. Vesturlandabúar geta ekki búizt við neinu góðu frá hans hendi.”

Þetta var sagt í leiðara DV 19. nóvember 1985. Tæplega ári síðar eða 21. ágúst 1986 stóð þetta í leiðara um einræðisherrann: “Hins vegar er marklaust að fá rithönd Gorbatsjovs undir loforð um frið og vináttu, kjarnorkuvopnalaus svæði og ýmsar viljayfirlýsingar.”

Nú er komið í ljós, að Gorbatsjov hefur líka svikið nýjustu samninga um samdrátt í herafla. Hann hefur látið flytja 16.400 skriðdreka austur fyrir Úralfjöll til að þurfa ekki að eyða þeim samkvæmt samkomulagi við Vesturlönd. Og hann hefur vantalið ýmsan herbúnað.

13. janúar 1987 stóð þetta í leiðara DV um eitt afrek Gorbatsjovs: “Fyrir mörgum árum var nokkur straumur fólks úr landi, en nú hefur að mestu verið skrúfað fyrir hann. Stjórnvöld ofsækja þá, sem sækja um að komast á brott, til dæmis með því að reka þá úr vinnu.”

Um afturhaldið að baki Gorbatsjovs var sagt í leiðara 19. janúar 1989: Ekki er heldur ótrúlegt, að Gorbatsjov gefi sjálfur eftir fyrir afturhaldinu.” Og 28. nóvember sama ár: “Ef Gorbatsjov … tekst að halda Rauða hernum frá valdaráni …” Sú valdataka er nú orðin að veruleika.

9. marz 1989: “Tilraunir stjórnvalda í Sovétríkjunum … til viðreisnar efnahags eru dæmdar til að mistakast. Gorbatsjov og stuðningsmenn hans hefðu betur kynnt sér málin á Íslandi áður en þeir tóku upp svipaða Framsóknarstefnu og íslenzkar ríkisstjórnir stunda.”

Fyrir ári var enn kvartað í leiðara DV yfir dálæti Vesturlanda á einræðisherranum: “Merkilegt er, hve mikla áherzlu stjórnmálaleiðtogar Vesturlanda hafa lagt á að styðja við bakið á Gorbatsjov, eins og hann sé eina ljósið í Sovétmyrkrinu.” Þetta var 27. marz 1990.

“Gorbatsjov er í raun enginn lykilmaður framfara í Sovétríkjunum. Flokksforustan hefur ráðið hann til að bjarga því, sem bjargað verður úr gjaldþrotinu.” Loks var Gorbatsjov líkt í þessum leiðara við annan einræðisherra, sem þá var í bandarískri náð, Saddam Hussein:

“Engin ástæða er fyrir Bandaríkjastjórn að bæta Gorbatsjov við fjölmenna hirð ógæfulegra skjólstæðinga sinna úti í heimi. Nóg ætti að vera fyrir Bush Bandaríkjaforseta að vera með ráðamenn Kína, Pakistan, Írak og annan hvern bófa í Suður-Ameríku á bakinu.”

5. apríl 1990: “Opnunin í Sovétríkjunum er snögglega horfin. Gorbatsjov er með sífelldar hótanir og ógnanir. Fjölmiðlar í Sovétríkjunum tyggja upp eftir honum ósóm-ann, nákvæmlega eins og í gamla daga, áður en Gorbatsjov fór að fitla við lýðræðiseldinn.

Snögglega hefur sannazt gömul regla, sem vestrænir ráðamenn, einkum bandarískir, hafa ekki skilið nógu vel. Hún er, að persónuleg sambönd koma ekki í stað utanríkisstefnu. Sá, sem setur traust sitt á persónu í útlöndum, verður fyrir vonbrigðum, þegar á reynir.”

Vestrænir stjórnmálamenn, fjölmiðar og nóbelsnefnd hafa hossað Gorbatsjov, þótt árum saman hafi verið vitað, að innihaldið var allt annað en ímyndin.

Jónas Kristjánsson

DV