Cashel
Aftur erum við komin upp á N59 og förum hann gegnum Clifden á nýjan leik. Næst beygjum við af honum til hægri, annað hvort á R341 eða R340 og fylgjum vegprestum til Cashel Bay.
Við þjóðveginn í Cashel Bay eru tvö frábær hótel, Zetland House og Cashel House. Hið síðarnefnda er í sérflokki að gæðum, þótt það sé frægast fyrir að hafa verið hvíldarstaður de Gaulle Frakklandsforseta.
Cashel House er einstaklega fagurt hús í fögrum garði, sem er nánast bótanískur. Að húsabaki eru hesthús. Húsakynni eru fremur fornleg og tilviljanakennd, en ákaflega viðkunnanleg. Til dæmis er hvert skotið inn af öðru á leiðinni á barinn. Alls staðar eru setustofur, bókasöfn og kimar með þröngum göngum á milli.
Ashford
Frá Cashel förum við áfram R341 og síðan til vinstri R340 og svo til hægri N59 alla leið til Maam Cross. þar beygjum við til vinstri R336 til Maam og þaðan til hægri R345 til Cong. Þar er Ashford Castle handan steinbrúar í risastórum garði.
Ashford Castle er kapítuli út af fyrir sig. Það er steingrátt draumahótel í furðulegri blöndu af fornum 13. aldar kastala, gömlum herragarði í frönskum hallarstíl og nýjum byggingum í gömlum kastalastíl. Allt er þetta í óraunverulegum graut. Eigin golfvöllur er á landareign hótelsins.
Næstu skref