Litháen mun lifa

Greinar

Betra er fyrir Ísland að gefa út formlega viðurkenningu Litháen sem fullvalda ríkis, svo og annarra Eystrasaltsríkja, sem þess óska, heldur en að hleypa utanríkisráðuneytinu út í tæknilegar vangaveltur um, hvort skipti á sendiherrum séu framkvæmanleg.

Ef utanríkisráðuneytið er svo illa að sér í lögfræðilegum réttlætingum, að það finnur ekki leið til að komast hjá tæknilegum vandamálum, ætti ríkisstjórnin að snúa sér til sjávarútvegsráðuneytisins, sem hefur langa reynslu af lögfræðilegum réttlætingum í hvalamálinu.

Ef við viðurkennum Litháen sem fullvalda ríki og ákveðum, að sendiherrann í Stokkhólmi fari með umboð okkar, kemst hann sennilega ekki til landsins. Og áritanir frá Landsbergis koma líklega ekki að gagni.

Í því tilviki getum við snúið okkur til sendimanna og utanríkisráðuneytis Sovétríkjanna sem fulltrúa hersetumanna með ósk um vegabréfsáritun. Við segjum þeim, að við gerum það vegna hernáms þeirra, sem við teljum vera tímabundið. Þeirra mál er að hafna slíku.

Vangaveltur um, að Litháen sé ekki fullvalda, af því að ríkisstjórn þess geti ekki tryggt íslenzkum sendimönnum ferðir til landsins, eru lögfræðileg þvæla úr utanríkisráðuneytinu, því að fullvalda ríki geta verið hersetin, hvort sem er í fimm mánuði eða fimmtíu ár.

Fyrir utan þessa formlega viðurkenningu okkar eigum við líka að sýna einræðisherra Sovétríkjanna á annan hátt fyrirlitningu okkar á ofbeldishneigð hans. Við getum neitað rannsóknaleyfum í ár og við getum krafizt helmings fækkunar í sendiráði Sovétríkjanna á Íslandi.

Ennfremur eigum við að halda áfram hinum ágæta þrýstingi gagnvart öðrum Norðurlöndum, Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu þjóðunum og öðrum fjölþjóðastofnunum, þótt ekki sé að vænta mikils stuðnings í verki frá þessum aðilum fremur en Evrópubandalaginu.

Atlantshafsbandalagið er lamað af stuðningi Gorbatsjovs við sókn Bandaríkjanna við Persaflóa. Evrópubandalagið er lamað af trausti Þýzkalands á honum vegna sameiningar Þýzkalands. Sameinuðu þjóðirnar eru lamaðar af neitunarvaldi hans í öryggisráðinu.

Norðurlöndin ættu að hafa forustu í hagsmunamálum Eystrasaltsríkjanna. En stjórnvöld þeirra og utanríkisráðuneyti þjást af makráðu hugleysi þeirra, sem telja röskun vera lakari en réttlæti. Því er hætt við, að frumkvæði okkar verði meiri eða minni einleikur.

Til þess að slæva reiði Vesturlanda hefur Gorbatsjov ráðið sendiherrann í Washington, Alexander Bessmertnyk, sem nýjan utanríkisráðherra í stað Sjevardnadse. Nýi maðurinn á að vera tákn þess, að ofbeldishneigð Sovétstjórnarinnar beinist nú aðeins inn á við.

Sovétríkin eru dæmd til að tapa stríðinu gegn lýðveldunum, sem hafa lýst yfir fullveldi eða ætla að gera það. Fjölþjóðaríki standast ekki tímans tönn, allra sízt á tímum þjóðernishyggju og trúhneigðar. Sovétríkin og Júgóslavía munu hverfa eins og rómverska heimsveldið.

Ofbeldi Gorbatsjovs í Litháen og Lettlandi er veikleikamerki einræðisherra, sem veit ekki, hvernig hann á að leysa málið. Hann er búinn að missa alla framfarasinnaða ráðherra og ráðgjafa. Hann á engan að nema svartnættismenn lögreglu, hers og leyniþjónustu.

Vesturlönd eiga ekki að styðja við bakið á pólitísku líki, þótt það heiti Gorbatsjov. Framtíðin er hjá sjálfstæðum lýðveldum, þar á meðal Litháen.

Jónas Kristjánsson

DV