Friðardúfur baka ófrið

Greinar

Þótt mikill meirihluti Íslendinga sé samþykkur hernaði bandamanna við Persaflóa, er hér fjölmennur minnihluti, sem er andvígur þessum hernaði. Hér, eins og annars staðar á Vesturlöndum, hafa hópar manna undirritað skjöl um þetta efni og sótt útifundi.

Ein algengasta orsök þessa sjónarmiðs er óbeit manna á manndrápum. Margir ganga svo langt að segja, að stríð sé aldrei réttlætanlegt, ekki frekar en dauðarefsing. Þessi skoðun nýtur stuðnings af þeim anda í kristinni trú, sem segir, að sælir séu friðflytjendur.

Vestræn menning á sér tvær meginrætur, annars vegar í kristni og hins vegar í grískri klassík. Smám saman hafa Vesturlönd komið sér upp leikreglum, sem byggðar eru á þessum forna grunni. Í þeim leikreglum er meira rými fyrir flutning á friði en dauða.

Innan hvers vestræns ríkis gilda lög og reglur, sem stefna að mannréttindum og lýðréttindum. Milli ríkja gilda hliðstæðar reglur, sem bezt og skýrast hafa verið settar fram í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þær eru hástig vestræns þjóðfélags.

Um leið og fólk, þjóðir og ríki verða færari um að leysa samskipti sín inn á við án ofbeldis, verða þessir aðilar verr í stakk búnir að mæta valdbeitingu að utan. Vesturlönd eru orðin veikgeðja í háþróun sinni. Þau eru tæpast fær um að verja sinn eigin grundvöll.

Þótt allur þorri ríkisstjórna í heiminum taki þátt í Sameinuðu þjóðunum og styðji þar með í orði hinar vestrænu hugmyndir, sem lýst er í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er fjarri því, að þær taki nokkuð mark á þeim fyrir sitt leyti.

Verra er, að margir harðstjórar fyrirlíta Vesturlönd einmitt fyrir hugmyndafræðina að baki stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þeir telja, að Vesturlönd séu að breytast í pappírstígrisdýr. Saddam Hussein trúði því og hóf því landvinningastríð.

Hann misreiknaði sig. Í ljós kom, að Bandaríkin höfðu í sér innri kraft til að efna til hernaðarbandalags gegn honum og hefja gagnsókn, sem jafngildir yfirlýsingu til annarra harðstjóra heimsins um, að þeir eigi ekki að flytja illmennsku sína út fyrir landamærin.

Þar á ofan eru sérstakar aðstæður, sem gera Vestur-löndum kleift að grípa til vopna undir forustu Bandaríkjanna, þótt þau treysti sér ekki til að verja Eystrasalts-lönd. Þau leggja einfaldlega í Saddam Hussein, af því að hann er kjörinn óvinur og er þar á ofan minni máttar.

Friðflytjendur á Vesturlöndum eiga óbeinan þátt í stríðinu við Persaflóa. Það eru þeir, sem hafa fengið Saddam Hussein til að halda, að hann komist upp með landvinninga sína. Sá, sem boðar skilyrðislausan frið, er nytsamur sakleysingi, sem sogar að sér ófrið.

Friðardúfur og nytsamir sakleysingjar eiga mikla sök á því, að kalda stríðið framlengdist áratug eftir áratug. Löngu eftir að Sovétríkin voru orðin aðframkomin í efnahagsmálum, héldu foringjar þeirra áfram að leita leiða til að ná tökum á lingeðja Vesturlöndum.

Enn eru friðflytjendur að grafa undan vestrænum hugsjónum. Þeir halda mótmælafundi og skrifa undir mótmælaskjöl gegn hernaði bandamanna við Persaflóa. Þeir fara í skólana og hræða börnin gegn stríði. Þeir vilja, að komandi kynslóðir hafni stríði algerlega.

Hugsjónir mannréttinda munu hrynja, nema fylgismenn þeirra geti gripið til vopnaðra varna, þegar friðflytjendur hafa bakað okkur ófrið af hálfu harðstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV