Lýðræði hentar íslam

Greinar

Styrjöldin við Persaflóa markar tímamót í hinni sálrænu kreppu, sem í vaxandi mæli hefur einkennt heim araba og íslams. Þar togast á hatur á Vesturlöndum og dálæti á afurðum Vesturlanda, svo sem hergögnum, öðrum tæknibúnaði, verkfræði og læknisfræði.

Afurðir Vesturlanda verða ekki skildar frá hugmyndaheiminum að baki. Ef vestræn tækni og vísindi henta fólki í heimi íslams og í þriðja heiminum, er óhjákvæmilegt, að vestræn valddreifing og lýðræði hentar því einnig, alveg eins og kom í ljós í Austur-Evrópu.

Þessu þjóðskipulagi er bezt lýst í stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Vesturlönd fara í stórum dráttum eftir þessu, svo og ýmis ríki í Suður-og Austur-Asíu, Kyrrahafi og Suður-Ameríku. Ríki íslams og þriðja heimsins gera það hins vegar ekki.

Í löndum íslams eru margir, sem átta sig á, að fólk er þar ekki allt öðruvísi en annað fólk. Það getur nýtt sér kosti lýðræðis, ef upp á það er boðið. Það vill kjósa, skipta um valdhafa, búa við upplýsingafrelsi og skoðanafrelsi og frelsi gegn geðþótta valdamanna.

Sum ríki íslams hafa fetað þessa vestrænu slóð. Tyrkland er orðið að hálf-evrópsku ríki, sem vantar bara herzlumuninn að verða tækt í Evrópuráðið. Lýðræði er skemmra á veg komið í Egyptalandi, en þó er þar töluvert málfrelsi og frelsi til að kjósa til þings.

Yfirstéttin í mörgum löndum íslams reynir að halda uppi svipaðri skoðun og yfirstéttin í þriðja heiminum gerir, þeirri, að vestrænt lýðræði henti ekki sínu fólki. Þessu heldur yfirstéttin fram til að koma í veg fyrir eða tefja aðstöðujöfnunina, sem fylgir vestrænu lýðræði.

Búin hefur verið til ímynd hins sjúklega barnalega araba, sem telur miðaldaklerka á borð við Khomeini erkiklerk og sterka fjöldamorðingja á borð við Saddam Hussein vera leiðtoga lífs síns. Þessi ímyndaði íslami er til, en er engan veginn hinn dæmigerði íslami.

Þrátt fyrir trúarbrögð og sögu arabískra þjóða, er ekkert, sem bannar, að fólk vilji þar vera laust við ofsóknir hers og lögreglu; geti tjáð sig óttalaust; sé ekki hrætt við að fá upplýsingar utan úr hinum stóra heimi, og vilji sjálft kjósa og fella eigin valdhafa.

Ef Saddam Hussein sleppur út úr stríðinu við Persa-flóa án þess að hrekjast frá völdum, munu eflast sjónarmið, sem blunda víða undir niðri í ríkjum íslams. Þá mun þessi heimshluti stofna í hættu hugmyndaheiminum á bak við margnefndan mannréttindasáttmála.

Þá mun stjórnarfar í ríkjum íslams færast nær stjórnarfari í Írak. Á tindinum verður harðstjóri, sem treður á mannréttindum. Efnahagslífið verður ríkisrekið og máttvana. Í utanríkismálum verða þessi ríki til miklu meiri vandræða en Sovétríkin voru til skamms tíma.

Ef Saddam Hussein verður hins vegar gersigraður með aðstoð Egypta og Tyrkja, munu um allan heim íslams eflast þau sjónarmið, að vestrænt valddreifingarkerfi henti þar eins og í Austur-Evrópu. Slíkur sigur mun vekja íslama til vitundar um, að 21. öldin nálgast.

Ef Persaflóastríðinu lýkur með algerum sigri bandamanna, er stigið fyrsta skrefið í átt til þess að vinna friðinn, sem verður þrautin þyngri. Vesturlönd verða þá að hjálpa nútímasinnuðum aröbum og íslömum að vinna stríðið um hugi fólksins á þessum slóðum.

Ef stríðinu lýkur hins vegar með eins konar málamiðlun, má búast við vaxandi erfiðleikum í alþjóðlegum samskiptum á næstu árum og atómstríði fyrir rest.

Jónas Kristjánsson

DV