48. Írland – Glendalough

Borgarrölt
Glendalough, Írland

Glendalough

Frá Avondale ökum við R755 til helgireitsins í Glendalough. Við stönzum á bílastæðinu og göngum um svæðið.

Klausturleifarnar í Glendalough eru einna magnaðastar og merkilegastar fornminjar í öllu Írlandi. Þessi afskekkti og dularfulli skógardalur hefur verið kristinn helgireitur frá upphafi kristni í Írlandi.

Heilagur Kevin stofnaði til hans 498, eftir mikla leit að friðsælum og afskekktum stað. Brátt streymdu til hans nemendur, svo að úr varð fljótlega klaustur, þar sem hann var ábóti. Í aldanna rás var klaustrið oft rænt, bæði af víkingum og heimamönnum, en rétti alltaf við á nýjan leik. Eftir árás Englendinga árið1398 lagðist munklífi þó af á þessum stað.

St. Kevin's Church, Írland

St. Kevin’s Church

Mest af fornminjunum eru við neðra stöðuvatnið á svæðinu. Frægastur er þar 33 metra hár og heill sívaliturn frá 11. eða 12. öld, notaður sem griðastaður, þegar ræningjar fóru um sveitir. Inngangurinn í turninn er á sjöttu hæð hans og þangað hafa menn komizt í kaðalstiga.

Dómkirkjan frá 7. öld er umfangsmesta mannvirkið. Eftir stendur kór og 15 metra langt kirkjuskip með vesturdyrum.

Heillegasta kirkjan á svæðinu er St Kevin’s Church, 11. aldar steinkirkja með steinhlöðnu þaki og sívölum kirkjuturni.

Milli kirkjanna tveggja er írskur hákross, 4 metra hár, vel varðveittur.

Við ökum frá neðra svæðinu upp að efra stöðuvatninu, þar sem eru leifar elzta klaustursins á svæðinu. Minjarnar þar eru miklu verr farnar, en andrúmsloftið er ekki síður magnþrungið en við neðra vatnið.

Aðgangur £1.

Næstu skref