Frestur er beztur

Greinar

Blönduvirkjun var upphaflega afsökuð með því, að við þyrftum að vera byrjaðir að virkja fyrir stóriðju til að geta farið út í tugmilljarða samninga á borð við þá, sem nú standa yfir milli Landsvirkjunar og Atlantals. Sjálfir höfum við ekkert að gera við orku frá Blöndu.

Samt var ekki gert ráð fyrir kostnaði við virkjun Blöndu, þegar reiknað var út, hvað mundi kosta að selja orku til álversins á Keilisnesi. Þeir, sem áður höfðu ýtt okkur út í þessa virkjun, sögðu, að Blönduvirkjun væri bara mistök, sem ekki mætti reikna upp á álverið.

Þetta minnir á aðferðir Vegagerðar þingmanna, þegar hún lætur fyrst undirbyggja vegi í strjálbýli, afskrifar svo framkvæmdirnar sem sagnfræðilega vitleysu úr þingmönnum og reiknar arðsemi í slitlagið eitt og sér, því að undirbyggingin hafi verið til á staðnum.

Landsvirkjun hefur alltaf þurft að hafa orkuver í smíðum, meðal annars til að halda uppi verkefnum fyrir fjölmennt starfslið. Hún hefur vanáætlað kostnað við allar virkjanir til að selja stjórnmálamönnum og almenningi hugmyndina um að láta reisa orkuverin.

Sigalda fór mjög langt fram úr áætlun. Hún átti að vera fremur ódýr, en samt kostar rafmagnið frá henni sem svarar 25 mills. Hún jafnast þó engan veginn á við Blöndu, sem er þegar komin 50% fram úr kostnaðar-áætlun, án þess að öll kurl séu komin til grafar.

Landsvirkjun er meðal annars búin að greiða meira en 700 milljónir króna í ýmsar skaðabætur til landeigenda á svæðinu. Fulltrúi þeirra er þingmaðurinn á Höllustöðum og stjórnarmaður Landsvirkjunar, sem nú er að semja við Atlantal til að koma Blöndu í rekstur.

Undirbúningur samninganna við Atlantal hefur verið sérkennilegur í meira lagi. Hann byrjaði með því að Landsvirkjun flutti vinnuskúra til Búrfells. Þetta óðagot sagði aðstandendum Atlantals, að þeir gætu verið harðir í samningum af því að okkur væri svo mikið mál.

Næst efndi Jón Sigurðsson orkuráðherra til mikils kapphlaups sveitarfélaga og samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum, í Eyjafirði og á Austurlandi um að bjóða niður lóð, höfn og aðra þjónustu hvert fyrir öðru, svo að Atlantal fengi sem hagstæðust kjör á Keilisnesi.

Síðan ritaði orkuráðherra í október á síðasta ári undir rammasamning, sem gerði ráð fyrir fremur litlum mengunarvörnum og allt of mikilli áhættu Íslendinga vegna tengingar orkuverðs við heimsmarkaðsverð á áli, án nokkurs verðlágmarks á innlendu orkunni.

Þegar farið var að rífast í þessum atriðum, fór forstjóri hins sænska Gränges í fýlu í sænska útvarpinu og hélt því fram, að íslenzkir þingmenn væru að klúðra málinu með sjálfsfremdarpoti og ósamlyndi. Sú fýla lýsir sér nú í sífelldum töfum á undirritun samnings.

Því miður tefst málið varla svo, að við missum af þátttöku í happdrætti, þar sem miðinn kostar 42 milljarða króna og vinningur er jafn ósennilegur og í hverju öðru happdrætti. Okkar menn þykjast þurfa að finna kaupanda að orkunni frá Blöndu, hvað sem það kostar.

Því miður er Atlantal ekki reiðubúið að greiða fyrir raforku það verð, sem við þurfum að fá til að standa undir virkjanakostnaði. Þetta neita samningamenn okkar að viðurkenna og hörfa því úr einu víginu í annað til að ná einhvers konar nauðungarsamningum.

Það er gott, að niðurstaða skuli frestast til hausts, því að alltaf er á meðan fræðilegur möguleiki á, að málið eyðist af sjálfu sér. Frestur er á illu beztur.

Jónas Kristjánsson

DV