Þjóðarsátt um búvöru

Greinar

Samtök launþega og vinnuveitenda eru í þann veginn að taka á sig ábyrgð af herkostnaði þjóðfélagsins af nýjum búvörusamningi til sex ára, sem felur í sér aukin milljarðaútjöld ríksins til landbúnaðarins á hverju ári. Þetta er verðugur þáttur í minnisstæðri þjóðarsátt.

Forustumenn Alþýðusambandsins og Vinnuveitenda-sambandsins hafa áður þrammað úr Garðastræti niður á Lækjartorg til að taka þátt í landsstjórninni. Sællar minningar komu sömu menn á því kerfi húsnæðislána, sem nú er orðið gjaldþrota með elegans.

Þjóðarsáttin gengur út á frystingu fortíðarinnar og framlengingu hennar, þar á meðal frystingu lífskjara. Þess vegna er eðlilegt, að þjóðarsátt meginaðila vinnumarkaðarins nái einnig til frystingar og framlengingar á ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar.

Skiljanlegt er, að samstaða myndist meðal helztu afturhaldsafla landsins, það er að segja samtaka vinnumarkaðarins og landbúnaðarins. Þjóðarsáttin í heild er einmitt tilraun til að taka markaðslögmál úr sambandi og skipuleggja vandamálin í þess stað að ofan.

Þjóðarsáttin kemur til Íslands frá ítölsku fasistunum fyrir stríð og með milligöngu Framsóknarflokksins. Samkvæmt heimspeki eða hugmyndafræði þjóðarsáttarinnar er þjóðfélagið ein stór fjölskylda og jafnvel einn stór líkami, sem þarf að vinna saman í þjóðarsátt.

Sovétríkin, Albanía og Ísland sitja eftir í þessari hugmyndafræði, á sama tíma og Austur-Evrópa hefur ákveðið að fara hina leiðina, í átt til röskunar og markaðsbúskapar. Kvótar, búmark, fullvirðisréttur, skömmtun og tilskipanir eru hornsteinn íslenzka fasismans.

Í rauninni þurfa Íslendingar meiri röskun til að geta fylgt í humátt á eftir auðþjóðum heimsins. Við þurfum meiri fólksflutninga milli landshluta og milli atvinnugreina. Við þurfum líf í tuskurnar, en ekki doða og frystingu þjóðarsáttar og nýs búvörusamnings til sex ára.

Garðastrætisgengið getur haldið fram, að skárra en ella sé að gera búvörusamning, þar sem gert sé ráð fyrir beinum greiðslum til bænda í stað útflutningsbóta og niðurgreiðslna og þar sem gert sé ráð fyrir skipulegum, 3.800 tonna samdrætti í framleiðslu kindakjöts.

Verra er hins vegar, að þjóðarsátt þeirra gengur út á, að ríkið borgi einum milljarði meira á ári en það gerir samkvæmt gamla samningnum, sem rennur út á næsta ári. Þjóðarsátt um nýjan búvörusamning eykur því herkostnað þjóðarinnar af varðveizlu fortíðar.

Aðrar þjóðir hafa útgjöld til hermála, sem koma í veg fyrir, að lífskjör séu eins góð og þau gætu verið. Hinn hefðbundni landbúnaður kemur hér á landi í stað herkostnaðar í útlöndum. Hann kostar skattgreiðendur um átta milljarða króna á ári og neytendur tólf milljarða.

Svo virðist sem umbjóðendur stjórnenda Alþýðusambandsins séu hvorki skattgreiðendur né neytendur, úr því að verkalýðsrekendur eru í þann veginn að verða aðilar að þjóðarsátt um of háa skatta og of hátt verð á matvælum, samtals um tuttugu milljarða króna á ári.

Hver hagfræðingurinn á fætur öðrum hefur gert tilraun til að reikna herkostnaðinn og allir komizt að svipaðri niðurstöðu, um tuttugu milljörðum. Það er árlegur herkostnaður okkar af stuðningi við hefðbundinn landbúnað, þar á meðal innflutningsbann á búvöru.

Vonandi stuðlar þáttur Garðastrætisgengisins í nýjum búvörusamningi að skilningi fólks á þjóðhagslegri skaðsemi fortíðarvarðveizlu í formi þjóðarsáttar.

Jónas Kristjánsson

DV