Með hindurvitni við hún

Greinar

Hindurvitni af ýmsu tagi hafa verið í mikilli sókn á íslenzkum markaði á undanförnum árum. Opnaðar hafa verið verzlanir á sviði hindurvitna og sett á fót fyrirtæki, sem halda námskeið á sama sviði. Allur pakkinn í heild hefur verið markaðssettur sem “nýöldin”.

Hvarvetna má sjá þess merki, að þetta er ekki lengur grín, heldur fúlasta alvara. Ráðherrar trúa á konur með svarta kassa eða álfa út úr hól. Fólk gengur með segularmbönd og kristalla. Það les framtíð sína úr stjörnum eða spilum, kindagörnum eða með samtölum við látna.

Sameiginlegt eiga öll þessi hindurvitni, að þau stríða eindregið gegn kristinni trú og vísindum nútímans. Það er eins og fólk hafi gert einhverjar þær kröfur til þessara tveggja höfuðstrauma vestrænnar hugmyndafræði, sem þeir hafa ekki getað staðið undir.

Forlagatrú er sterkur þáttur í mörgum greinum hindurvitna, svo sem skýrast kemur fram í stjörnuspekinni. Innhverf heimsmynd eða naflatrú er líka afar öflug og andstæð hinni opnu heimsmynd, sem kemur fram bæði í kristinni trú og í vísindum nútímans.

Þriðji þátturinn, sem er áberandi í ýmissi nýaldarhyggju, er hin gamla trú á stokka og steina, segulmátt og náttúruöfl. Í hindurvitnum nútímans er forn heiðni í rauninni að sækja fram að nýju gegn háþróuðum trúarbrögðum og ennþá þróaðri og flóknari vísindahyggju.

Bæði kristin kirkja og vísindin hafa snúizt til varnar. Hér á landi hefur þjóðkirkjan reynt, með takmörkuðum árangri, að vekja athygli á, hvílíkur grundvallarmunur er á kennisetningum hinna ýmsu kirkjudeilda kristninnar annars vegar og hindurvitnum hins vegar.

Íslenzkir vísindamenn hafa ekki hirt um að leggja í hliðstæða vinnu. Erlendis er þó reynt að skoða hindurvitni á vísindalegan hátt. Til er sérstakt tímarit, “The Sceptical Inquirer”, þar sem tekin hafa verið í gegn ýmis hindurvitni, sem markaðssett hafa verið.

Svo virðist sem Íslendingar séu sem þjóð hvorki eins kristnir og kirkjan æskir né eins upplýstir og vísindin æskja. Við erum óeðlilega móttækileg fyrir fornum hindurvitnum, ekki sízt ef þau eru markaðssett sem eins konar ný sannindi í eins konar “nýaldarhyggju”.

Halldór Laxness segir á einum stað um okkur: “Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandamál sín með því að stunda orðhengilsháttô.ô.ô.”

Þótt við höfum marga kosti, er áberandi, hve lítið mark er tekið á skynsamlegum rökum og rökum krist-innar trúar hér á landi. Ef eitthvað er sagt eða skrifað, eru viðbrögð manna ekki: “Hvað var sagt?”, heldur t.d.: “Hver sagði það?” og “Hvaða hvatir lágu að baki?”

Ef hagfræðingar rökstyðja rækilega, að háir vextir dragi úr verðbólgu, segir forsætisráðherra hið gagnstæða og stýrir þjóðfélaginu í samræmi við það. Ef ótal fræðimenn á mörgum sviðum rökstyðja sölu veiðileyfa á rækilegan hátt, er því svarað með skætingi.

Ef ótal fræðimenn rökstyðja rækilega, að þjóðin tapi um það bil tuttugu milljörðum á hverju ári á hinum hefðbundna landbúnaði, er því ekki svarað efnislega, heldur með útskýringum á sálarlífi þessara fræðimanna, illum hvötum þeirra og skorti á þjóðhollustu.

Þannig mótast viðhorf af hindurvitnum, hvort sem fjallað er um stjórn- og efnahagsmál eða um sannindi tilverunnar, hvort sem það er á sviði trúar eða vísinda.

Jónas Kristjánsson

DV