Feneyingar eru að stofni afkomendur Veneta, sem bjuggu á óshólmum Pó-dals á valdatíma Rómverja. Árásir þjóðflutninga-tímans hröktu fólkið út á fenjamiðju, þar sem borgin var stofnuð á rúmlega hundrað hólmum, árið 421 samkvæmt bókum Feneyinga. Þeir ráku staura niður í leðjuna, reistu hús sín á þ
eim og tengdu smám saman tugi hólma með skurðum og brúm, sem æ síðan hafa einkennt borgina.
Feneyingar horfðu út á hafið og urðu smám saman miklir sjómenn og kaupsýslumenn. Ófærir óshólmar vörðu borgina landmegin og skipakostur þeirra sjávarmegin. Þeir hófu snemma viðskipti við Miklagarð, helztu stórborg þess tíma og urðu fyrir miklum áhrifum frá býzanskri list. Á miðöldum juku þeir sæveldi sitt um austanvert Miðjarðarhaf og unnu sigur á Miklagarði 1204.
Meðan aðrar borgir Ítalíu sættu borgarastyrjöldum á endurreisnartíma, bjuggu Feneyingar við vel skipulagt lýðveldi um það bil 2000 höfðingja, sem kusu sér hertoga. Þetta höfðingjaveldi stóðst áfallalítið í ellefu aldir, unz Napóleon batt enda á það án vopnaviðskipta í lok 18. aldar. Feneyjum byrjaði að hnigna á 16. öld, þegar Atlantshafið tók við af Miðjarðarhafi sem heimshafið.
Sjá meira