Feneyskir málarar, fæddir þar eða búsettir, voru allar aldir meðal fremstu listamanna Ítalíu. Þeir kynntu ekki nýjungar á borð við gotneskan stíl og endurreisnarstíl, en þeir tóku þær upp og gerðu þær að hefð. Róm og Flórenz eru frægari fyrir einstök tímabil ítalskrar listar, en Feneyjar eiga mikla listamenn frá öllum þessum tímabilum. Og málverk þeirra eru enn í Feneyjum.
Feneysk list fæddist af meiði Miklagarðs og blandaði saman býzönskum stíl og gotneskum. Mósaík og gullinn litur einkennir fyrstu listamenn Feneyja, svo sem frændurna Paolo og Lorenzo Veneziano. Síðan komu Jacopo Bellini, bræðurnir Gentile og Giovanni Bellini, Andrea Mantegna, Bartolomeo Vivarini og Vittoro Carpaccio með skarpar myndir á frumskeiði endurreisnartímans.
Háskeið endurreisnartímans endurspeglast svo í leik ljóss og skugga í málverkum Tiziano, Tintoretto og Paolo Veronese. Helztu fulltrúar Feneyja frá tímum hlaðstíls og svifstíls voru svo Canaletto, Pietro Longhi og frændurnir Giambattista og Giandomenico Tiepolo. Í nánast hverri af hinum mörgu kirkjum Feneyja má finna málverk eftir þessa heimsfrægu meistara.