Við höldum áleiðis úr kirkjunni. Sunnan við innganginn innanverðan eru tröppur upp á kirkjusvalirnar. Þaðan er gengið inn í fjársjóðastofuna og í bronzhrossastofuna og út á svalirnar fyrir ofan anddyri kirkjunnar. Við lítum fyrst út á svalirnar.
Hrossastytturnar fjórar ofan við innganginn eru eftirlíkingar þeirra, sem þar stóðu í hartnær sex aldir, frá 1204, þegar Feneyingar rændu þeim úr Miklagarði, og til 1797, þegar Napóleon rændi þeim frá Feneyjum og flutti til Parísar. Af svölunum er ágætt útsýni niður á Markúsartorg og byggingarnar umhverfis það.
Í stofu að baki svalanna eru hinar upprunalegu hrossastyttur úr bronzi varðveittar úti í horni. Þær voru upphaflega við keisarastúku paðreimsins í Miklagarði. Margt hafa þær séð um dagana, en núna á elliárunum hafa þær ekkert útsýni.
Áður en við yfirgefum kirkjuna getum við minnzt þess, að hér varð tónskáldið Monteverdi kórstjóri árið 1613 og varð þar með upphafsmaður forustu Fenyja á sviði tónsmíða, sem náði hámarki á upphafi næstu aldar, þegar Vivaldi varð tónstjóri Pietà kirkjunnar hér í nágrenninu.